Samkvæmt blaðamanni BBC segir í yfirlýsingu talíbana að ekki komi til árása á herlið eða borgara í Kabúl, heldur fari nú í hönd viðræður um friðsamleg valdaskipti í borginni.
AP hefur eftir afgönskum embættismönnum að til standi að færa völdin í hendur nýrri tímabundinni stjórn, svo að ekki komi til þess að Kabúl verði vettvangur átaka.
Talíbanar fara nú með öll völd í 24 af 34 héraðshöfuðborgum Afganistan. Ásamt Kabúl heldur stjórnin enn nokkrum héruðum í mið- og austurhluta landsins.
Á vef BBC segir að forseti landsins, Ashraf Ghani, standi nú frammi fyrir því að ákveða hvort talíbönum verði mætt af hörku í baráttu um borgina, eða hvort stjórnarherinn láti undan og leyfi borginni að fara undir stjórn þeirra.

Í siðustu viku gáfu bandarísk stjórnvöld það út að þau teldu að hægt væri að halda uppi vörnum í Kabúl í að minnsta kosti þrjá mánuði. Sókn talíbana eftir að bandaríski herinn dró sig frá Afganistan hefur verið hraðari en óttast hafði verið.
Bandarískir hermenn í Kabúl hafa undanfarið unnið hörðum höndum að því að flytja fólk úr borginni. Hið sama gildir um margar Evrópuþjóðir. Kanadísk yfirvöld hafa boðað að þau muni taka við 20 þúsund flóttamönnum frá Afganistan. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að ástandið í landinu sé orðið stjórnlaus, og muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir afgönsku þjóðina.