Annað húsnæði skólans er nýtt í ystu æsar. Kennt verður í öllum rýmum, meðal annars íþróttahúsi, hátíðarsal og á Íþökuloftinu. Þá verða sérstofur nýttar og nokkur minni rými. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík sendi á nemendur og foreldra í gær.
„Eins og okkur grunaði er ástand hússins [Casa Cristi] mjög bágborið, enda höfum við bent á að löngu sé orðið tímabært að framkvæmdir byrji á nýrri húsbyggingu í stað þessa húss. Ekki er boðlegt að kenna í húsinu og því þurftum við á einungis nokkrum dögum að finna lausn til að við gætum tekið á móti öllum nýnemum,“ segir í póstinum.
Nokkuð hafi þá borið á því frá því að skóli hófst að nemendur séu nú þegar í sóttkví og búast megi við að nemendur og starfsmenn muni í vetur þurfa að fara í sóttkví. Sú staða geti vel komið upp að breyta þurfi kennslu skyndilega í fjarkennslu.
„Því brýni ég það fyrir öllum að búa svo um hnútana að menn gangi úr skugga um að hafa búnað til að geta farið yfir í fjarnám.“
Í húsnæði Dómkirkjunnar verður lesaðstaða fyrir nemendur MR, sem opnar næstkomandi mánudag. Lesaðstaðan er í safnaðarheimili Dómkirkjunnar við Tjörnina og verður hún opin nemendum á virkum dögum.