Skoðun

Sýni­dæmi KSÍ um þöggunar­menningu

Halldór Auðar Svansson skrifar

Löglærður forseti dómstóls KSÍ skrifaði færslu á Facebook í gærkvöldi um Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur, sem steig fram til að andmæla þeim málflutningi sambandsins að engin erindi vegna kynferðiofbeldis landsliðsmanna hefðu borist inn á borð þess. Þar birtir hann gögn úr skýrslutöku hennar hjá lögreglu og slengir fram „gullkornum“ á borð við:

- Áréttingu þess efnis að hún hafi ekki leitað alveg strax til læknis eftir ofbeldið. Óútskýrt hvað það á nákvæmlega að þýða.

- Áréttingu þess efnis að læknirinn hafi ekki fundið „mikla“ áverka, eins og maðurinn orðar það. Átt er við að ekki hafi verið sýnilegir áverkar en hins vegar óvenju miklar bólgur í hnakkakýli sem bentu til þess að þrengt gæti hafa verið að hálsi hennar. Óútskýrt er nákvæmlega hvernig það teljast ekki miklir áverkar eða hvernig það að maður þrengi að hálsi konu teljist ekki alvarlegt.

- Umfjöllun um skrif hennar á Twitter um kynhegðun sína. Óútskýrt er nákvæmlega hvað það kemur ofbeldismálinu við.

Fleiri dylgjur og tilburði til að grafa undan trúverðugleika hennar og mannorði er að finna í þessum skrifum (það virðist helsti eða jafnvel eini tilgangur þeirra) en þetta þrennt er svona það helsta. Á meðan tekst manninum samt sem áður að renna stoðum undir það að hún varð sannarlega fyrir ofbeldi (af hálfu manns sem sagði í yfirlýsingu bara um daginn að hann kannaðist ekki við að hafa beitt ofbeldi) og lagði fram kæru en dró hana til baka þegar hún taldi að sáttum hefði verið náð með öðrum hætti.

Ef einhvern vantar skýrt sýnidæmi um ástæður þess að konur veigra sér við að tjá sig um það ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir opinberlega þá er það hér komið. Þetta er ansi góð innsýn í þá menningu sem letur þær frá því með mjög markvissum hætti.

Ætlar KSÍ annars bara að láta þetta standa svona?

Höfundur er í 3. sæti á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi Suður í Alþingiskosningum í haust.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×