Þetta gerir hann á Facebook-síðu Halldórs Guðmundssonar rithöfundar og stuðningsmanns Samfylkingarinnar. En Halldór vitnar í Stein Steinarr:
Og loks er eins og ekkert hafi gerst,
orti Steinn.
Seðlabankastjóri skaut Viðreisn á flugi
Halldór spyr: „Var ekki meginbreyting kosninganna sú að Framsókn endurheimti kjósendur sína frá Miðflokknum? Og sundrað vinstrið tapaði.“
Samfylkingarfólk reynir nú að rýna í stöðuna. Össur er einn þeirra en fáir eru eins vel lesnir í kosningum og hann. Össur segir að það sem gerðist sé engin tilviljun. Seðlabankastjóri hafi skotið Viðreisn sem var á góðu flugi niður með „makalaustri tímasetningu“ og vísar hann þar til viðtals Viðskiptablaðsins við Ásgeir Jónsson sem segir að verði krónan fest við evru, líkt og Viðreisn berst fyrir, geti það kallað á hærri stýrivexti.
„Samfylkingin fór mjög seint af stað og henni og Pírötum skorti málafylgju og forystu til að koma erindum sínum á framfæri, að frátalinni Kristrúnu [Frostadóttur].“
Samfylkingin afvelta eftir innanflokksátök
Og Össur hlífir sínum gamla flokki ekki:
„Stjórnarandstaðan skíttapaði einfaldlega kosningabaráttunni. Samfylkingin var afvelta eftir vetur innanflokksátaka þar sem vænsta fólki var rutt úr sætum og gersamlega tilefnislaus varaformannsslagur saxaði á limina hans Björns míns,“ segir Össur og hlífir félögum sínum hvergi.

Þó Samfylkingarfólk reyni nú að horfa inn á við, eins og Logi Einarsson formaður Samfylkingar hefur boðað að nú sé þörf á, vill Grímur Atlason, eiginmaður Helgu Völu Helgadóttur þingmans Samfylkingar, ekki gleypa útleggingar Össurar alveg hráar. Hann spyr hvort lýðræðið sé ekki einmitt best þegar framboð er af frambærilegu fólki og val félaga fari fram í kjölfarið? „Það er hins vegar rétt að ekki var spilað rétt úr stöðunni í kjölfarið og val á lista fór illa en Kristrún kom samt í gegnum þetta val.“
Þá vill Grímur meina að í Reykjavíkurkjördæmunum, hvar Samfylkingin hefur staðið sterkust, hafi samkeppnin verið gríðarlega hörð og nægi þar að nefna hinn vinsæla formann Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur, Ásmund Einar Daðason Framsóknarflokki, sem reyndist sigurvegari kosninganna, Pírata og svo 5,8 prósenta manninn hann Gunnar Smára Egilsson Sósíalistum. „Ekki hægt að horfa framhjá þessu.“