Ef Víkingum tekst að vinna Vestra í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á laugardaginn verður Pablo því að vera fljótur að koma sér heim eftir að El Salvador mætir Mexíkó á heimavelli 13. október.
— Pablo Punyed (@PabloPunyed) September 30, 2021
Raunar hefst leikurinn við Mexíkó klukkan 2 eftir miðnætti að íslenskum tíma, aðfaranótt fimmtudagsins 14. október. Bikarúrslitaleikurinn er laugardaginn 16. október.
Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, segir að búið sé að ganga frá því að Pablo verði kominn heim til Íslands á fimmtudeginum. Hann verði því til taks komist Víkingar í bikarúrslitaleikinn. Hið sama megi segja um Kwame Quee sem valinn hafi verið í landslið Síerra Leóne vegna vináttulandsleikja.
Að sögn Haraldar hefur Pablo, í samráði við þjálfara Víkings, ítrekað þurft að gefa frá sér sæti í landsliðshópi El Salvador frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Nú sé hins vegar orðið einfaldara og öruggara fyrir hann að ferðast til Mið-Ameríku til að spila landsleiki og hann þurfi ekki að fara í sóttkví við komuna aftur til Íslands.
