Eftir að hafa fengið á sig allsherjarballbann vegna slæmrar umgengni í skólanum bættu MK-ingar ráð sitt og í kvöld er uppskeruhátíð á SPOT: Það er uppselt á 550 manna ball.
MK-ingar lýstu fyrir skemmstu miklum vonbrigðum sínum með að böllin hefðu verið blásin af á meðan umgengnin væri eins hræðileg og hún sannarlega var í byrjun skólaárs. Stjórnendur skólans þurftu að grípa til sinna ráða.
Skólastjóranum í MK var alvara með ballbanninu, þótt nú hafi því verið aflétt, segir hún.
„Það er bara svoleiðis. Stundum er það þannig að maður þarf að setja fótinn niður og ef við ætlum að vera saman í þessu samfélagi þá berum við bara ábyrgðina saman líka. Þau bara hafa axlað hana og brugðust svo hratt við að það varð ekki nema lítil seinkun á ballinu,“ segir Guðríður Eldey Arnardóttir skólameistari.
MK-ingar eiga von á góðu ef marka má stemninguna á balli Verzló í gær, sem var auðvitað á meðal fjölmennustu viðburða sem haldnir hafa verið á Íslandi um nokkra hríð.
„Ég var bara eiginlega með gæsahúð bara allan tímann, gæsahúð í þrjá tíma. Þannig að þetta var ólýsanleg tilfinning, það voru bara allir svo ótrúlega ánægðir og glaðir,“ segir forseti NFVÍ, Kári Freyr Kristinsson.
1.200 gestir greindust allir neikvæðir í hraðprófi sem þeir fóru í fyrir ballið hjá Verzló. MK-ingar þurfa að undirgangast sama próf fyrir kvöldið, eins og þessi sem er að fara á sitt fyrsta ball.
Hraðpróf er eina prófið sem MK-ingar þurfa að undirgangast fyrir kvöldið, en þar er enginn skyldaður til að blása í áfengismæli við hurðina. Nemendur á fyrsta ári í Verzló þurfa hins vegar að gera það - en að öðru leyti ógildir ölvun vitaskuld miðann í öllum tilvikum, eins og forsetinn áréttar.