BBC segir frá þessu en málið sneri að ásökunum hinnar 38 ára Virginiu Giuffre semsakar prinsinn um að hafa brotið gegn sér kynferðislega þegar hún var táningur. Lögreglustjóri Lundúnaborgar, Cressida Dick, sagði í ágúst að enginn væri hafinn yfir lög og að lögregla myndi rannsaka málið.
Í yfirlýsingu frá lögreglunni í morgun kemur fram að gögn sem voru opinber í ágúst og leiddu til höfðunar einkamáls í Bandaríkjunum, hafi nú verið rannsökuð af bresku lögreglunni. Niðurstaðan sé að ekki verði ákært í málinu og rannsókn hætt.

Hin 38 ára Giuffre fullyrðir að bandaríski viðskiptamaðurinn Jeffrey Epstein hafi reglulega brotið gegn henni og sömuleiðis leyft „valdamiklum mönnum“ að brjóta gegn henni. Sagði hún að Andrés prins hafi brotið gegn sér kynferðislega í íbúð Ghislaine Maxwell, náinnar samstarfskonu Epsteins, í London.
Maxwell er nú í fangelsi í New York á meðan hún bíður þess að réttarhöld yfir henni hefjist. Hún er ákærð fyrir mansal og að aðild að skipulögðum kynferðisbrotum.
Epstein svipti sig lífi í fangaklefa 2019.