New York Times greinir frá því að Trump Media and Technology Group, sem var stofnað í febrúar á þessu ári, hafi runnið saman við fyrirtækið Digital World á miðvikudag. Digital World, sem var stofnað skömmu eftir að Trump beið ósigur í forsetakosningunum, á 300 milljónir dala í sjóðum sínum, sem Trump getur nú nýtt til að byggja upp fyrirhugað samfélagsmiðlaveldi.
Digital World er meðal fyrirtækja sem hafa verið stofnuð á grunni nýs fyrirbæris á Wall Street sem hefur verið kallað „auður tékki“, eða „blank check company“ á ensku. Hugtakið er notað um fyrirtæki sem fara í hlutafjárútboð strax eftir stofnun, sem gerir það að verkum að fjárfestar hafa afar takmarkaðar upplýsingar um í hverju þeir eru að fjárfesta.
Fyrirtækin renna í kjölfarið inn í önnur eldri fyrirtæki, venjulega á einu og hálfu ári, en í tilviki Digital World leið aðeins mánuður áður en samningur hafði verið undirritaður við Trump Media and Technology Group. Þeir sem fjárfestu í Digital World vissu aðeins að fjármunir þeirra yrðu notaðir til að fjárfesta í nýjum tæknifyrirtækjum og það kom flestum á óvart þegar tilkynnt var um samruna Digital World og TMTG.
Einn af helstu fjárfestum Digital World var fyrirtækið Saba Capital, 3,5 milljarða dala sjóður rekinn af Boaz Weinstein. Weinstein sagði í gær að Saba Capital hefði selt stóran hluta í Digital World um leið og upp komst um samrunan við TMTG, þrátt fyrir að verð á hlutum í fyrirtækinu hefðu verið á uppleið. Sagði hann marga fjárfesta glíma við þá spurningu hvernig þeir gætu fjárfest í takt við eigin gildi og að það væri útilokað að Saba Capital tæki þátt í að fjármagna TMTG.
Í kynningu á TMTG á vefsíðu fyrirtækisins segir að fyrirtækið hyggist fara í samkeppni við samfélagsmiðla á borð við Twitter og Facebook, sem hafa lokað á forsetann fyrrverandi, en einnig við streymisveitur á borð við Netflix og Disney og fjölmiðla á borð við CNN.