Bodø/Glimt vann 6-1 sigur á Roma á heimavelli sínum, Aspmyra, í Norður-Noregi í gær. Norsku meistararnir voru 2-1 yfir í hálfleik og bættu svo fjórum mörkum við í seinni hálfleik þrátt fyrir að Mourinho hafi sett margar af sínum stærstu stjörnum inn á.
Alfons Sampsted lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar hjá Bodø/Glimt og lagði þriðja mark liðsins upp fyrir Erik Botheim. Hann skoraði tvö mörk í leiknum og lagði upp þrjú.
Mourinho hefur lengi verið kallaður „The Special One“, eða hinn sérstaki. Hinir sérstöku í gær voru hins vegar leikmenn Bodø/Glimt.
Á forsíðu VG var stór mynd af leikmönnum Bodø/Glimt að fagna fyrir framan káta stuðningsmenn sína undir yfirskriftinni „The Special Ones“, eða hinir sérstöku.
After @Glimt beat Mourinho s Roma 6-1 last night Norwegian paper #vg has this cover pic.twitter.com/jxi4qwCAkU
— Jan Aage Fjørtoft (@JanAageFjortoft) October 22, 2021
Bodø/Glimt er á toppi C-riðils Sambandsdeildarinnar með sjö stig, einu stigi á undan Roma. Zorya Luhansk er með þrjú stig og CSKA Sofia eitt.
Seinni leikur Bodø/Glimt og Roma fer fram á Ólympíuleikvanginum í Róm fimmtudaginn 4. nóvember.