Stundin greindi frá því í morgun að Helgi hefði hætt störfum sem yfirlögfræðingur Landsvirkjunar á dögunum í kjölfar þess að fá formlega áminningu í starfi fyrir hegðun gagnvart samstarfskonu.
Stundin hefur eftir heimildarmönnum að alvarlegasta atvikið hafi átt sér stað í vor, þegar Helgi á að hafa króað konuna af úti í horni og strokið kinn hennar gegn vilja hennar. Þá á Helgi að hafa sagt ítrekað við konuna að hún væri lesbíuleg eftir að hafa klippt hár sitt stutt.

Þá kom fram að í starfi hans sem yfirlögfræðingur Landsvirkjunar hafi meðal annars falist að sjá um formlegar áminningar í starfi, sem hann fékk sjálfur.
Anna Dóra Sæþórsdóttir, forseti Ferðafélags Íslands, segir Helga hafa sagt af sér sem stjórnarmaður í morgun. Málið sé ofsalega leiðinlegt frá öllum aðilum séð. Nýr stjórnarmaður verði kosinn á næsta aðalfundi félagsins á nýju ári.
Helgi er mikill útivistarmaður og er menntaður leiðsögumaður. Hann hefur verið virkur í starfi Ferðafélags Íslands undanfarin ár. Ekki náðist í Helga við vinnslu fréttarinnar.