Skoðun

Árangur á COP26

Dr. Bryony Mathew skrifar

Nú þegar loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, í Glasgow er lokið getum við metið þann árangur sem náðist á stærstu alþjóðlegu ráðstefnu sem Bretland hefur haldið.

  • Loftslagssáttmáli Glasgow (The Glasgow Climate Pact) mun hraða loftslagsaðgerðum og öll lönd samþykktu að endurskoða og styrkja núverandi losunarmarkmið sín til 2030.
  • Parísarreglubókin, leiðbeiningar um hvernig Parísarsamkomulagið er framkvæmt, var kláruð eftir sex ára umræður. Reglubókin leggur m.a. áherslu á gagnsæi.
  • Í fyrsta sinn samþykkti COP aðgerðir til að draga úr jarðefnaeldsneyti í áföngum. Þetta er í fyrsta sinn sem jarðefnaeldsneyti er nefnt með þessum hætti.
  • Ákvarðanir gengu lengra en nokkru sinni áður í því að viðurkenna og takast á við tap og skaða vegna núverandi áhrifa loftslagsbreytinga.

Það mætti þannig segja að COP26 hafi lagt línurnar. Nú verða þjóðir að bregðast við.

Þessi niðurstaða kemur meðal annars í kjölfar tveggja ára vinnu diplómata víða um heim og herferðar sem breska formennskan hefur staðið fyrir til að auka metnað og tryggja aðgerðir frá næstum 200 löndum í heiminum. Þá gaf leiðtogafundurinn og þemadagar skipulagðir af formennskunni af sér röð yfirlýsinga og áheita frá löndum til þess að bregðast við vandanum:

  • Að minnsta kosti 90% af hagkerfi heimsins hefur nú lofað kolefnishlutleysi, þessi tala var aðeins 30% þegar Bretland tók við formennsku COP árið 2019.
  • Samhliða þessu höfum við séð loforð frá 130 löndum um að binda enda á eyðingu skóga fyrir árið 2030. Þessi lönd telja saman 90% af skógum heimsins.
  • Við sáum breytingu í stefnu landa um kolanotkun. Fleiri lönd hafa skuldbundið sig til að hætta notkun kola til orkuframleiðslu og binda enda á alþjóðlega fjármögnun kola.
  • Nokkrir af stærstu bílaframleiðendum vinna svo saman að því að gera alla sölu nýrra bíla kolefnislausa árið 2040 og fyrir 2035 á leiðandi mörkuðum. Lönd og borgir taka einnig þátt með metnaðarfullum dagsetningum um að hætta að nota bensín- og díselbíla. Þar á meðal eru Ísland, Reykjavíkurborg og Akureyri.

Okkur þykir hinsvegar leitt að $100 milljarða markmiðinu til þess að styðja við loftlagsaðgerðir verði náð seinna en búist var við. Það er mikilvægt að minnast á þann árangur sem náðist þó, þar sem sum lönd komu fram og tvöfölduðu eða jafnvel fjórfölduðu skuldbindingar sínar.

COP26 hélt markmiðinu um 1,5C á lífi og kláraði Parísarsamkomulagið.

Með þennan tímamótasamning sem samþykktur var á COP26 í veganesti verðum við nú að halda áfram að vinna saman á þessum afgerandi áratugi. Við verðum að standa við þær væntingar sem settar eru fram í Loftslagssáttmála Glasgow og gera betur. Það er enn gríðarlega margt og mikið sem þarf að vinna að.

Höfundur er Dr. Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi.


Tengdar fréttir

Við hverju má búast á COP26?

COP26 er gríðarlega mikilvæg stund fyrir Bretland og heiminn allan. Það eru margir sem trúa því að þetta sé síðasta raunverulega tækifærið okkar til að ná stjórn á loftslagsbreytingum og stöðva þau hrikalegu áhrif sem þær hafa nú þegar á plánetuna okkar í formi alvarlegra flóða, storma og skógarelda.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×