Leikur Real og Valencia var æsispennandi en lið Martins Hermannssonar byrjaði leikinn af krafti áður en heimamenn vöknuðu af værum blundi og skoruðu 13 stig í röð. Aftur snerist leikurinn og fór það svo að Valencia leiddi með einu stigi að loknum fyrsta leikhluta.
Varð þetta að þema leiksins en Valencia var enn með forystuna í hálfleik, staðan þá 48-51. Í síðari hálfleik komust gestirnir allt að 12 stigum yfir en heimamenn komu til baka og var leikurinn einkar jafn allt til loka leiks, fór það svo að Valencia vann eins stigs sigur.
Lokatölur 93-94 og Valencia fagnaði gríðarlega mikilvægum sigri. Martin skoraði fimm stig, tók eitt frákast og gaf fimm stoðsendingar. Enginn gaf fleiri stoðsendingar á vellinum.
Valencia er áfram í 4. sæti með 24 stig að loknum 18 leikjum en liðið á leik til góða á Manresa sem situr í 3. sæti með 26 stig.
Í spænsku B-deildinni skoraði Ægir Þór 8 stig í öruggum sigri Gipuzkoa á Real Valladolid, lokatölur 85-71. Gipuzkoa er í 3. sæti með 28 stig eftir 18 leiki.