Hrafninn hittum við óvænt í Lágmúlanum í dag þar sem fréttastofa var stödd í öðrum erindagjörðum. Hann var með eindæmum gæfur eins og sjá má í myndbandinu sem fylgir fréttinni.
Hann vakti mikla lukku meðal vegfarenda á svæðinu.
Ungir hrafnar eru óttalegir kjánar
Við leituðum til sérfræðings til að ræða hrafnalífið í borginni eftir kynni okkar af hrafninum í Lágmúla.
En eru hrafnar orðnir gæfari í dag en áður?
„Fyrst og fremst meta þeir svona bara hvar er hætta á ferð. Hérna innan borgarinnar eru þeir nú varla ofsóttir og þeir geta verið mjög spakir og sérstaklega ef einhvers ætis er von. En svo geta sumir hrafnar verið miklu styggari,“ segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.

Og þarna getur aldur fuglanna spilað inn í.
„Ungir hrafnar eru til dæmis eru fyrstu mánuðina bara asnar og miklir kjánar en þeir læra nú fljótt á lífið,“ segir Kristinn Haukur.
Þannig ég hef líklega hitt einn svona kjána eða hvað?
„Já, væntanlega,“ segir Kristinn Haukur og hlær við.

Koma í bæinn á veturna
Hann segir hrafnana einstaklega skemmtileg dýr og taldir meðal þeirra gáfuðustu ásamt páfagaukum og krákum.
Varpstofn hrafna í borginni hefur stækkað samhliða fjölgun trjáa og núverpa hér tugir para.
Á veturna sækja hrafnar úr nágrannasveitarfélögum hins vegar í borgina í leit að æti og til að para sig.
Þeir geta verið í hundraðatali í Reykjavík á veturna.

Ekkert venjulegt krunk
En hljóðin í hrafninum sem við hittum í dag vöktu mikla athygli okkar og vegfarenda. Það var ekki það venjulega krunk sem flestir tengja við hrafninn. Við spurðum Kristinn út í það:
„Hrafnarnir gefa frá sér mjög merkileg og margvísleg hljóð. Þeir eru að parast á veturna. Þeir parast í þessum geldhrafnaflokkum þannig sumt af þessum hljóðum eru kannski ástarkvak,“ segir hann og líkir eftir einu af hljóðum hrafnsins, líklega því sem við heyrðum í dag. Við bendum lesendum enn og aftur á myndbandið sem hér fylgir fréttinni, sem sýnt var í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í dag.
Hvort ástarkvak hrafnsins hafi beinst að frétta- og tökumanni verður ekki fullyrt um hér en eitt er víst að hann vitrist að minnsta kosti ansi hrifinn af okkur.