Nema kannski þann sem tók við okkur atvinnuviðtalið.
Samt erum við oftast búin að búa okkur nokkuð vel undir starfið. Finnum til tilhlökkunar. Erum búin að ákveða í hverju við ætlum að mæta fyrsta daginn. Mætum snemma og vitum að okkar nánasta fólk bíður spennt eftir því að heyra í dagslok hvernig gekk.
Að vera feiminn á fyrsta degi í nýrri vinnu er samt alveg eðlilegt.
Og þótt þér finnist eins og allir aðrir í vinnunni séu öryggið uppmálað er staðreyndin sú að þetta sama fólk fann til feimni fyrst þegar það byrjaði á þessum vinnustað.
Sama hversu sjálfsöruggt fólk virðist vera.
Feimni á fyrsta degi í vinnunni snýst því ekkert um að vera líðan sem við eigum ekki að upplifa. Heldur frekar hvernig við berum okkur þennan dag, þegar við erum hreinlega feimin.
Hér eru nokkur góð ráð sem geta hjálpað.
1. Undirbúningurinn daginn áður
Við getum orðið feimin á mismunandi hátt og af mismunandi ástæðum. Sumir verða til dæmis alltaf feimnir í fjölmenni, sumir roðna, sumir eiga erfiðara með að tala hátt og skýrt, sumir upplifa fyrst og fremst óöryggi.
En við búum líka öll yfir styrkleikum þannig að áður en þú mætir fyrsta vinnudaginn er ágætt að vera búin að hugsa það svolítið fyrirfram, hver þín birtingarmynd af feimni er.
Hugsaðu síðan um helstu styrkleikana þína og hvernig þú ætlar að nýta þá sérstaklega, til að draga úr feimnistilfinningunni þennan fyrsta dag.
2. Mæting á fyrsta degi
Það er gott að mæta snemma þennan fyrsta dag, þótt ekki sé verið að tala um eitthvað óeðlilega snemma. En það að geta átt að minnsta kosti tíu mínútur á vinnustaðnum gerir okkur gott. Að koma okkur fyrir, læra á kaffivélina og segja góðan daginn við fyrstu vinnufélagana sem að við hittum.
Þá er líka gott að vera helst búin að ákveða í hvaða fötum við ætlum að mæta fyrstu vinnuvikuna.
Þetta á við um bæði konur og karla.
Því það að klæðast fötum sem okkur líður vel í, hjálpar okkur að vera sjálfsöruggari.
3. Skrýtið en…. það er gott að spyrja
Þegar við finnum fyrir feimni eigum við ekki beint auðvelt með að spyrja spurninga eða taka þátt í umræðum hóps eða á fundi.
Hins vegar er það staðreynd að með því að spyrja spurninga, til dæmis að fá aðstoð eða leiðbeiningar í verkefni frá vinnufélaga, þá gerir þú tvennt: Færir fókusinn frá feimninni yfir á verkefni og myndar tengsl við samstarfsfélaga um leið.
Þótt ekki sé nema að mana sig upp í eina til tvær spurningar yfir daginn. Eða kannski tvær spurningar fyrir hádegi og tvær spurningar eftir hádegi?
Ein spurningin gæti til dæmis verið að spyrja vinnufélaga hvernig hádegisfyrirkomulaginu sé háttað. Hvort fólk sé vant að fara á sama tíma eða?
4. Ekki flýja þótt það sé freistandi
Það er rosalega gott að taka strax af skarið og borða með vinnufélögum í hádeginu fyrsta daginn.
Þó upplifa margir þetta sem erfitt skref, segjast þurfa að drífa sig eitthvað bara til þess eins að ná aðeins að slaka á magahnútinum svona eftir fyrsta morguninn.
En það að borða með samstarfsfélögum í mötuneytinu, á kaffistofunni eða á nærliggjandi stað hjálpar svo mikið við að yfirstíga feimni.
Því oftast er samstarfsfélögum mjög umhugað um að nýliða líði sem best og samræður leiðast því oft á þær brautir og fljótlega finnur þú einhverja fleti sem þú átt sameiginlega með einhverjum af þessum nýju samstarfsvinum.
Gott er að hugsa um þetta, daginn áður en þú mætir til vinnu. Því þegar við erum búin að undirbúa okkur huglægt, erum við líklegri til að taka af skarið frekar en nánast að „flýja“ af vettvangi.
6. „Vertu þú sjálfur“ söng Helgi Björns
Að vera feimin þennan fyrsta dag er bara allt í lagi. Og bara hluti af því hver við erum, að vera svolítið feimin þennan fyrsta dag.
Það er því allt í lagi að slaka aðeins á og vera svolítið meðvituð um að vera bara við sjálf. Njóta þess að vera að byrja í nýrri vinnu, að hlakka til að segja frá þegar að við komum heim og hlakka til að mæta á morgun.
Og áður en við vitum af, erum við orðin eins örugg í fasi og störfum og nýju vinnufélagarnir okkar virðast allir vera.