Skoðun

Vinnum að friði!

Guttormur Þorsteinsson og Stefán Pálsson skrifa

Á níunda áratug síðustu aldar var veröldin á heljarþröm. Risaveldin kepptust við að stækka vopnabúr sín og óttast var að heimsstyrjöld gæti brotist út, jafnvel bara fyrir mistök eða misskilnings. Forystumenn hernaðarveldanna virtust úr takti við almenning og sumir taldir vart með öllum mjalla. Þau sem lifðu þessa tíma muna sífellda kjarnorkuógnina sem gat minnt á sig við sakleysislegustu aðstæður.

En þessi ár voru líka tími öflugrar friðarhreyfingar. Út um allt voru starfandi litlir hópar sem hvöttu til afvopnunar og töluðu máli friðsamlegra lausna á deilumálum heimsins. Ýmsar stéttir stofnuðu sín eigin friðarsamtök. Má þar nefna listamenn, heilbrigðisstéttir og menntastéttir. Innan verkalýðshreyfingarinnar mátti finna öfluga friðarhópa og sama gildir um kirkjudeildir og trúfélög. Við lok kalda stríðsins dró skiljanlega úr kraftinum í þessari baráttu. Önnur brýn mál kölluðu á orku og starfsþrek hugsjónafólks.

Óþarft er að fjölyrða um þá stöðu sem nú blasir við okkur á alþjóðavettvangi. Blóðugt stríð fer nú fram í Evrópu og nægir eru til þess að hella olíu á eldinn. Hernaðarsinnar ganga á lagið og kalla eftir meiri útgjöldum til vígvæðingar, fleiri vopnum og stærri. Við þær aðstæður eru mikilvægara en nokkru sinni fyrr að raddir friðarsinna heyrist hátt og snjallt.

Við hvetjum frjáls félagasamtök, fagfélög, trúfélög og verkalýðshreyfingu til að blása lífi í gamlar hugsjónir um frið og afvopnun og koma á nýjan leik upp friðarhópum sem geta lagt skynsamlegt og gott til í heimi sem virðist einbeittur í að tortíma sér. Oft var þörf en nú er nauðsyn!

Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga

Stefán Pálsson, ritari Samtaka hernaðarandstæðinga




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×