Skoðun

Langþráðir samningar í höfn

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Loksins hafa náðst langtímasamningar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur hjúkrunarheimila. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra birti tilkynningu þess efnis í dag. Um er að ræða samninga til þriggja ára og er heildarupphæð þeirra tæpir 130 milljarðar. Þetta eru svo sannarlega góðar fréttir.

Nauðsynlegar aðgerðir

Samningarnir kveða á um að auka á fjármagn til hjúkrunarheimila og bæta þjónustu við íbúa. Hér er um að ræða brýnt verkefni til þess að bæta þjónustu og tryggja öryggi íbúa. Auk þess á að efla þjónustu við þá einstaklinga sem þurfa hvað mesta umönnun með auknum framlögum í útlagasjóð. Í samningunum er einnig kveðið á um að styrkja úrræði fyrir yngri einstaklinga sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda og þá sem glíma við geð- og fíknisjúkdóma. Þá er í samningunum tryggð aukafjárveiting til lítilla hjúkrunarheimila.

Samningarnir eru við rekstraraðila allra þeirra 45 hjúkrunarheimila sem starfa víðs vegar um landið samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands og eru unnir í sátt. Næstu misseri verður síðan áfram unnið að skilgreindum verkefnum sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimilanna og efla gæðastarf.

Hjúkrunarheimili framtíðarinnar

Samkvæmt samningunum á að vinna að verkefnum sem bæta rekstrarumhverfi hjúkrunarheimilanna til framtíðar. Samhliða samningnum hafa samningsaðilar samþykkt að setjast að borðinu með heilbrigðisráðuneytinu til að ræða þróun starfsemi hjúkrunarheimila með vinnuhópnum um endurskoðun á mats- og greiðslukerfi til hjúkrunarheimila. Þar er verið að horfa til lengri tíma varðandi þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum og hvernig sú þjónusta muni þróast til framtíðar. Breyttar kröfur eru um gæði og þjónustu og greiðslur þurfa að vera í samræmi við það.

Þá ætlar heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að settur verði á fót vinnuhópur undir stjórn fjármálaráðuneytis um fyrirkomulag húsnæðismála hjúkrunarheimila í samvinnu við Heilbrigðisráðuneyti, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Áfram veginn

Þá er það er skýr vilji allra þeirra sem koma að samningsborðinu að bæta rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar, það horfir til bjartari tíma í málefnum hjúkrunarheimila. Með þessum langþráðu samningum hafa náðst þýðingarmikil markmið um stöðugleika og fyrirsjánleika í rekstri hjúkrunarheimila næstu árin. Þetta eru ánægjulegar fréttir.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×