Skoðun

Lilja af­ruglar VG og bendir á Bjarna Ben

Sigmar Guðmundsson skrifar

Salan á eign þjóðarinnar í Íslandsbanka tekur á sig undarlegri mynd með hverjum deginum. Nú stígur Lilja Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra, fram og segist hafa verið andvíg því fyrirkomulagi sem viðhaft var við söluna. Og að hún hafi komið því skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins. Auðvitað er það gott að Lilja greini nú frá andstöðu sinni við fyrirkomulagið, en talsvert betra hefði verið hjá ráðherra að tala skýrar um þetta opinberlega áður en salan hófst.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins virðist viðskiptaráðherra hafa búið yfir talsvert nákvæmari upplýsingum um fyrirkomulagið en allir aðrir. Hún tekur það nefnilega skýrt fram að "því miður er fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð". Þetta finnst mér merkilegt því útkoman kom öllum öðrum á óvart, vegna þess að hún var ekki í neinu samhengi við það fyrirkomulag sem kynnt var.

Það gat ekki hvarflað að neinum að seldir yrðu litlir óverulegir hlutir í bankanum til fjölmargra fjárfesta með afslætti sem ætlaður var stórkaupendum. Enn síður gat nokkur maður vitað að sumir þeirra sem sáu um söluna myndu sjálfir kaupa í bankanum. Þeir fengu sem sagt myndarlega þóknun fyrir að selja sjálfum sér þjóðareign með afslætti. Og hvergi kom fram að einstaka aðilar gætu notað þetta sem tækifæri til að "taka snúning" og leysa út afsláttarhagnaðinn á einni nóttu. Okkur var nefnilega sagt að selja ætti stórum fjárfestum sem gætu staðið með bankanum til lengri tíma, líka þegar illa árar. "Gæði eigenda" skipti miklu máli.

Útkoman kom viðskiptaráðherra hins vegar ekki á óvart. Því er það miður að hún hafi ekki talað skýrar um þetta fyrr opinberlega, því þannig hefði mögulega mátt afstýra þessu stórslysi. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin hafi ráðist í sölu á fjármálafyrirtæki með fyrirkomulagi sem sjálfur viðskiptaráðherrann var andvígur. Að sama skapi er það jákvætt að viðskiptaráðherra skuli afrugla illa dulkóðaða smjörklípu VG og benda á það augljósa: Ábyrgðin er fyrst og síðast pólitísk og það dugir ekki bara að kasta sprekum á bálköstinn sem nú brennur undir bankasýslunni.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×