Fótbolti

Hæstánægð eftir skiptin til Puma: „Fannst Nike ekki gera nógu mikið“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir er ein fjölmargra leikmanna sem hafa fært sig yfir til Puma á síðustu misserum.
Sara Björk Gunnarsdóttir er ein fjölmargra leikmanna sem hafa fært sig yfir til Puma á síðustu misserum. puma

Puma hafði gengið með grasið í skónum eftir Söru Björk Gunnarsdóttur í tvö ár áður en hún samdi við íþróttavöruframleiðandann. Hún segir að Puma geri meira fyrir sig en Nike sem hún var áður samningsbundinn.

Í janúar á síðasta ári var greint frá því að Sara hefði skrifað undir samning við Puma. „Puma-fjölskylda, hér er ég,“ skrifaði Sara við myndir af sér í fatnaði frá Puma á Twitter.

„Umboðsmaðurinn minn hafði verið í sambandið við Puma áður en ég samdi, alveg í tvö ár. Þeir höfðu reynt að fá mig í svolítið langan tíma en ég fílaði aldrei fótboltaskóna sem er það mikilvægasta, að þú fílir skóna sem þú spilar í,“ sagði Sara í samtali við Vísi í Prag í síðasta mánuði þar sem íslenska landsliðið dvaldi fyrir leikinn gegn Tékklandi í undankeppni HM.

Landsliðsfyrirliðinn finnur mun á því viðmóti sem hún fær hjá Puma samanborið við Nike.

„Svo á einhvern hátt fannst mér Nike ekki vera að gera nógu mikið þannig ég ákvað að prófa Puma skóna. Mér fannst vera góð þróun hjá þeim. Líka þjónustan og allt í kringum í Puma, hvernig þeir koma fram við kúnnana sína og þá sem þeir eru að styrkja,“ sagði Sara.

„Ég kunni að meta það, samdi, þeir hafa sýnt mér ótrúlega mikinn stuðning og þjónustan er frábær og góð tengsl.“

Sara og stöllur hennar í Lyon tryggðu sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu með 1-2 sigri á Paris Saint-Germain á laugardaginn. Lyon mætir Barcelona í úrslitaleiknum 22. maí. Sara fær þar tækifæri til að verða Evrópumeistari í annað sinn á þremur árum með Lyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×