Í myndskeiði sem hann birtir á miðlinum TikTok sýnir hann frá því þegar farþegar voru fluttir úr vélinni í flugskýli, þeir myndaðir af lögreglu og farangur þeirra fjarlægður.
Um var að ræða farþega um borð í farþegaþotu þýska flugfélagsins Condor sem var á leið frá Frankfurt til Seattle í Bandaríkjunum. Flugvélinni var snúið við yfir Grænlandi síðdegis á mánudag eftir að áhöfn tilkynnti að einhver hafi skrifað enska orðið bomb, eða sprengja, á spegil inn á salerni vélarinnar.
Engin sprengja fannst um borð
„Ég var tekinn í gíslingu af íslenskum stjórnvöldum,“ skrifar farþeginn sem gengur undir heitinu Winnie The Jroo á TikTok þegar hann er kominn um borð í rútu á flugbraut Keflavíkurflugvallar. Í bakgrunni sjást lögreglumenn framkvæma líkamsleit á öðrum farþegum.
Næst segir hann að lögregla hafi skipt farþegunum upp í hópa og bannað þeim að fara á salernið án þess að veita nokkrar upplýsingar um það hvers vegna fólkið var statt á Íslandi.
Síðar fékk hann að vita að aðgerðir lögreglunnar hafi komið til vegna tilkynningar um sprengjuhótun. Greint hefur verið frá því að engin sprengja hafi fundist um borð í flugvélinni og sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, síðdegis í gær að ekki væri vitað hver bæri ábyrgð á hótuninni.
Rúm milljón manna hafa horft á myndbandið á TikTok þegar þetta er skrifað en Winnie The Jroo er með 1,5 milljónir fylgjenda á miðlinum.