Smith fer um víðan völl í myndbandinu og bregst við ýmsum spurningum fólks sem vöknuðu í kjölfar atviksins þar sem Will Smith óð upp á svið, sló Chris Rock utan undir og úthúðaði honum.
Myndbandið hefst á því að Smith spyr „Af hverju baðstu Chris ekki afsökunar í þakkarræðunni?“ sem hann svarar sjálfur með því að segja að hann hafi verið í algjörri móðu á þessum tímapunkti.
Hann segist hafa haft samband við Chris Rock sem hafi ekki enn viljað ræða við Smith um málið. Því næst biður hann Rock afsökunar og segir hegðun sína hafa verið óásættanlega og hann sé reiðubúinn til að ræða málin hvenær sem Rock vilji.
Biður fjölskyldu Rock og sína eigin fjölskyldu afsökunar
Smith biður einnig fleira fólk afsökunar í myndbandinu. Hann biður móður Chris Rock og fjölskyldu hans afsökunar og bætir við að hann hafi upprunalega ekki gert sér grein fyrir því hvað hann særði marga með gjörðum sínum.
Smith segist jafnframt hafa eytt undanförnum þremur mánuðum í að hugsa sinn gang og hann sjái algjörlega að sér.
Í myndbandinu þvertekur Smith jafnframt fyrir að Jada Pinkett-Smith, eiginkona hans, hafi beðið hann um að bregðast við orðum Rock.
Þess má geta að þetta er ekki fyrsta skiptið sem Smith biðst afsökunar á kinnhestinum á Instagram, skömmu eftir atvikið birti Smith afsökunarbeiðni í textaformi á miðlinum.