Matvælaráðherra skipaði fjóra starfshópa í vor meðal annars til að skoða með hvaða hætti mætti endurskoða fiskveiðilöggjöfina. Það var gert því fullreynt þótti að hægt væri að ná einhverri sátt um breytingar á löggjöfinni.
Oft hafa miklar deilur hafa risið upp í samfélaginu um hvað sé sanngjarnt auðlindagjald í sjávarútvegi. Þá hafa komið fram áhyggjuraddir yfir vaxandi samþjöppun. Nú síðast þegar Síldarvinnslan keypti Vísi í Grindavík en við þá sameiningu eignaðist Samherji aðild að 25% heildarveiðiheimilda landsins sem er yfir lögbundnu lágmarki.
Samkeppniseftirlit á eftir að samþykkja kaupin
Samkeppniseftirlitið á eftir að samþykkja kaupin. Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu í dag kom fram að samrunatilkynning hafi ekki borist og málið sé því ekki komið til formlegrar meðferðar.
Þá kom fram í nýlegri skoðanakönnun Maskínu að um þrír fjórðu hlutar þjóðarinna hafi áhyggjur af vaxandi samþjöppun í sjávarútvegi.
Þrátt fyrir þetta eru þrjú ár þangað til að fullbúið frumvarp um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni komi fram eða vorið 2024 í matvælaráðuneytinu. Þangað til verði starfshópar að sinna verkefninu á einn eða annan máta. Þetta kemur fram í upplýsingum frá ráðuneytinu.
Matvælaráðherra baðst undan viðtali í dag vegna málsins þegar fréttastofa leitaði eftir því það væri mögulegt síðar í vikunni.
Breytingar boðaðar of seint
Sigmar Guðmundsson varaformaður Viðreisnar telur þetta alltof seint .
„Auðvitað er búið að liggja lengi fyrir hvað þarf að gera. Þjóðin þarf að fá sanngjarnt verð fyrir auðlindina, aflaheimildirnar sem sjávarútvegur nýtir sér. Það þarf ekkert að skipa starfshópa með tugum einstaklinga til að lagfæra það. Það liggur nú þegar fyrir. Það þarf líka að fara í vinnu um hverjir teljast tengdir aðilar í sjávarútvegi og auka gegnsæki t.d. með því að stærstu fyrirtækin séu skráð á markað. Það liggur fyrir í hverri skoðanakönnunni á fætur annarri hvað þjóðin vill,“ segir Sigmar.
Hann er svartsýnn um að það náist sátt milli stjórnarflokkanna í málinu þrátt fyrir allan þennan tíma sem gefa á í málið.
„Við höfum séð að Framsóknarflokkur hefur opnað á það að sjávarútvegur greiði meira til samneyslunnar. En hinir flokkarnir sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið gegn því. Af hverju ætti það eitthvað að vera breytt árið 2024,“ spyr Sigmar að lokum.