Kwasi Kwarteng verður fjármálaráðherra, James Cleverly utanríkisráðherra og Suella Braverman tekur við af Priti Patel sem innanríkisráðherra. Þá hefur ein nánasta vinkona Truss, Therese Coffey, verið skipuð heilbrigðisráðherra og varaforsætisráðherra.
Ríkisstjórnin kemur saman í dag áður en Truss mætir í þingið til að mæta í fyrirspurnartíma í fyrsta sinn sem forsætisráðherra. Enginn þeirra sem studdi við bakið á mótherja hennar, Rishi Sunak, í baráttunni um leiðtogasæti Íhaldsflokksins fékk ráðherrastól. Þar á meðal eru fyrrverandi kollegar hennar í ríkisstjórn eins og Dominic Raab, Grant Shapps, George Eustice og Steve Barclay sem allir þurfa að víkja úr ríkisstjórn.
Upplýsingafulltrúi Truss hefur sagt að breytingarnar muni sameina Íhaldsflokkinn og benti á að fimm þeirra sem buðu sig fram gegn Truss í formannsslagnum hafi verið skipaðir í mikilvæg embætti fyrir flokkinn: Áðurnefnd Suella Braverman, Tom Tugendhat nýr öryggismálaráðherra, Kemi Badenoch nýr viðskiptaráðherra, Penny Mordaunt sem leiðtogi Íhaldsmanna í neðri deild þingsins og Nadim Zahawi ráðherra um eignir krúnunnar.
Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem fjögur valdamestu embætti breska framkvæmdavaldsins - forsætisráðherrann, fjármálaráðherrann, innanríkisráðherrann og utanríkisráðherrann - eru ekki skipuð hvítum karlmanni.
Með fyrstu verkum Truss var að heyra í kollega sínum í Úkraínu, forsetanum Vólódímír Selenskí, en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins hét hún honum áframhaldandi stuðningi. Þá hefur Truss einnig þegið heimboð frá Selenskí til Úkraínu. Eftir að hún ræddi við Selenskí ræddi Truss við Joe Biden Bandaríkjaforseta. Þau eru sögð hafa rætt mikilvægi þess að Bretland kæmist að samkomulagi við Evrópusambandið um viðskiptasamning við Norður-Írland.