Leikurinn fór fram í Mitrovica í Kósóvó, þar sem hraðmót upp á áframhald í keppninni fer fram.
Leikur liðanna var í járnum í upphafi en eftir að hafa komist 11-9 yfir tók við fjögurra mínútna kafli án stigs frá Þórsurum þar sem þeir kýpversku komust 18-11 yfir. Þórsarar skoruðu sex stig á lokakafla fyrsta fjórðungs en staðan að honum loknum var 21-17 fyrir AEK.
Leikurinn var áfram jafn framan af öðrum leikhluta en góður kafli AEK skilaði þeim níu stiga forystu í hálfleik, 45-36.
Munurinn varð minnst fjögur stig, 49-45 fyrir AEK, í þriðja leikhluta en að honum loknum var hann tvöfalt meiri, 58-50.
Þórsarar skoruðu sjö af fyrstu tíu stigum fjórða leikhlutans til að minnka muninn aftur í fjögur stig, 61-57. Þeir kýpversku héldu íslenska liðinu í seilingarfjarlægð allt til loka og unnu að endingu níu stiga sigur, 77-68.
Þór er því úr leik í keppninni en AEK spilar aftur á móti við Antwerp Telenet Giants frá Belgíu í næstu umferð á morgun. Sigurlið þeirra viðureignar fer í úrslitaleik á föstudag um sæti í riðlakeppninni.
Grikkinn Fotios Lampropoulos var stigahæstur hjá Þórsurum með 18 stig og tók að auki sjö fráköst. Alonzo Walker skoraði 16 stig og tók átta fráköst. Stigahæstur á vellinum var hins vegar Antreas Christodoulou úr AEK með 21 stig.