Skoðun

Ekki sprengja börn!

Ellen Calmon skrifar

Barnaheill fordæma árásir sem bitna á börnum. Sprengjum hefur rignt yfir Kyiv, höfuðborg Úkraínu, síðustu daga. Þar á meðal lenti ein sprenging á leikvelli sem er um einum kílómeter frá skrifstofu Barnaheilla - Save the Children Í Úkraínu. „Við fundum jörðina skjálfa,“ sagði starfsmaður Barnaheilla í Úkraínu.

Á undanförnum dögum hefur fjöldi hjálparstofnana neyðst til að stöðva starfssemi sína í Úkraínu vegna öryggisógnar starfsfólks. Í borgunum Kyiv, Lviv, Ternopil og Dnipro hefur rignt sprengjum og hafa að minnsta kosti 11 almennir borgarar látið lífið og 89 særst. Heimili, skólar, göngubrýr og leikvellir hafa orðið fyrir sprengjum og mikið tjón hefur orðið á innviðum sem hefur leitt til rafmagnsleysis og truflana á neysluvatnsrennsli. Nú fer að kólna í Úkraínu og hafa þessar árásir áhrif á undirbúning heimilanna fyrir veturinn sem getur reynst kaldur. Barnaheill krefjast þess að alþjóðleg mannúðarlög séu virt til þess að vernda börn gegn átökum. Árásir sem þessar eru brot á alþjóðlegum stríðslögum.

Átökin í Úkraínu sem hafa staðið yfir 8 ár og hafa alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children veitt neyðaraðstoð til barna og fjölskyldna þeirra víða um land. Átökin bitna verst á börnum sem eiga, samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að njóta verndar öllum stundum. Að minnsta kosti 7,5 milljónir barna eru í brýnni hættu. Úkraínsk börn hafa þurft að þola átök, skotárásir og ofbeldi og hefur fjöldi þeirra þurft að leggja á flótta frá heimilum sínum.

Fréttamyndirnar sem okkur hafa borist frá Kyiv þar sem leikvellir barna hafa verið sprengdir upp eru óhugnanlegar og sýna okkur að börn eru hvergi hult þegar kemur að stríði. Skilaboð Barnaheilla – Save the Children á Íslandi eru einföld: Ekki sprengja börn! Við hjá Barnaheillum styðjum við börn í neyð víðsvegar um heiminn með því að safna fé í viðbragðssjóð alþjóðasamtaka Barnaheilla. Þeir fjármunir nýtast meðal annars til að styðja við börn í Úkraínu. Söfnun stendur nú yfir hér á heimasíðu samtakanna Neyðarsöfnun Barnaheilla (styrkja.is)

Höfundur er framkvæmdastýra Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×