Varað er við veðrinu þvert yfir Bandaríkin og jafnvel niður að landamærum Mexíkó og í sólskinsríkinu Flórída. Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í New York, Kentucky, Norður-Karólíunu, Vestur-Virginíu, Georgíu og Oklahoma.
Þúsundum flugferða hefur þegar verið aflýst eftir því sem bætir í storminn og víða er því spáð að um jólin verði allt á kafi í snjó.
Sumstaðar er búist við því að frostið fari í 50 gráður á celsíus. Slíkar tölur gætu líka sést á mannmörgum stöðum eins og í borginni De Moines í Iowa.
The ongoing major winter storm will continue to produce areas of heavy snow, strong winds, and life-threatening wind chills through Saturday. If traveling for the holiday, please use extreme caution and pay attention to the latest forecasts and updates. pic.twitter.com/WqMskJosNf
— NWS Weather Prediction Center (@NWSWPC) December 22, 2022
Joe Biden forseti varaði landsmenn við því sem koma skal í ræðu í gærkvöldi, þar sem hann hvatti fólk til að halda sig heima og hætta sér ekki út í óveðrið. „Þetta er ekki snjódagur, eins og þegar við vorum börn. Þetta er alvarlegt ástand,“ sagði forsetinn.
Þá óttast yfirvöld líka tjón af völdum veðursins, þar sem ískrapi getur myndað stíflur og framkallað flóð í ám og lækjum.
Veðurstofa Bandaríkjanna segir um að ræða einstakan veðurviðburð og gerir ráð fyrir að yfir 100 kuldamet gætu fallið. Kuldinn muni ógna lífi og heilsu íbúa á austurströndinni.