Viðræður um yfirtöku svissneska bankans UBS á bankanum Credit Suisse hófust á föstudagskvöld en seðlabankinn og fjármálaeftirlitið þar í landi stóðu að viðræðunum, sem höfðu það markmið að endurvekja traust á bankakerfinu.
Boðað var til blaðamannafundar klukkan 19:30 á staðartíma í dag þar sem farið var yfir stöðu mála. Þar staðfesti Alain Berset, forseti Sviss, að UBS myndi festa kaup á keppinauti sínum.
Forsetinn sagði að samningurinn hafi mikil áhrif á að halda fjármálamörkuðum heimsins gangandi. „Stjórnlaust fall Credit Suisse myndi hafa óútreiknanlegar afleiðingar á landið og alþjóðlega fjármálakerfið,“ sagði forsetinn á fundinum.
Sögulegur og sorglegur dagur
„Þetta er sögulegur dagur í Sviss, og í rauninni er þetta dagur sem við vonuðumst til að myndi aldrei koma,“ er haft eftir Colm Kelleher, stjórnarformanni UBS, í frétt Reuters um kaupin. Hann segir ýmsa atburði undanfarna vikna hafa gert það að verkum að ýtt var á UBS til að taka yfir bankann til að koma í veg fyrir slæmt ástand á fjármálamörkuðum heimsins.
Þá segir Ralph Hamers, forstjóri UBS, að enn eigi eftir að klára mörg smáatriði í samningnum. „Ég veit að það hljóta ennþá að vera spurningar sem við höfum ekki náð að svara og ég skil það og ég vil meira að segja biðjast afsökunar á því,“ segir Hamers.
Axel Lehmann, stjórnarformaður Credit Suisse, segir að samningurinn sé skýr stefnubreyting. Hann tekur einnig í svipaðan streng og kollegi sinn hjá UBS:
„Þetta er sögulegur, sorglegur og virkilega erfiður dagur fyrir Credit Suisse, fyrir Sviss, og fyrir alþjóðlega fjármálamarkaði,“ er haft eftir Lehmann í umfjöllun AP um kaupin.
Fengu ekki að greiða atkvæði um samninginn
Þrátt fyrir að kaupverðið sé meira en upphaflega var talið þá er það ennþá töluvert undir markaðsvirði bankans á föstudaginn. Þá var markaðsvirði bankans um 7,43 milljarðar Bandaríkjadala en sem fyrr segir er kaupverðið einungis 3,24 milljarðar.
Hluthafar í Credit Suisse höfðu ekkert um það að segja hvort það væri nógu mikið þar sem þeir fengu hvorki að samþykkja né hafna samningnum. Ástæðan fyrir því er sú að yfirvöld í Sviss lögðu fram neyðarreglugerð sem gerði kaupin möguleg án atkvæðagreiðslu frá eigendum Credit Suisse.