Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði meginvexti sína í tólfta sinn í röð í dag og það um heilt prósentustig. Vaxtahækkun eru eins og geislameðferð við krabbameini og hefur áhrif á allt samfélagið og þar með heimilin í landinu, þótt æxlið sjálft sé kannski gífurleg neysla á aðra milljón ferðamanna og gríðarlegar fjárfestingar og framkvæmdir fyrirtækja og hins opinbera.
Meginvextirnir eru nú komnir í 7,5 prósent sem þýðir að vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum meðbreytilegum vöxtum gætu farið í tæp tíu prósent á næstu vikum. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir vaxtahækkanir hafa kælt húsnæðismarkaðinn en útlán til fyrirtækja hafi hins vegar aukist mikið að undanförnu. Því þyrfti enn að hækka vextina til auka fjármagnskostnað.

„Við þurfum að bregðast við. Getum ekki beðið eftir neinum öðrum til að koma inn. Við verðum bara að taka á þessu verkefni sem okkur er falið samkvæmt lögum,“ segir Ásgeir. Best væri ef aðilar vinnumarkaðarins og hið opinbera gætu ásamt Seðlabankanum myndað þjóðarsátt um að ná verðlagi niður.
Von er á fjármálaáætlun frá stjórnvöldum á allra næstu dögum Þar er meðal annars þrýst á að lagður verði áhvalrekaskattur á fyrirtæki sem skilað hafa miklum hagnaði undanfarin misseri og í raun hagnast á efnahagsástandinu.
„Við fögnum náttúrlega öllu aðhaldi hjá ríkissjóði. En við ætlum svo sem ekki endilega að gefa út komment um það hvernig farið er að við að ná því fram,“ segir Seðlabankastjóri. Hins vegar hefur Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra orðað þann möguleika og formaður Framsóknarflokksins sagt það koma til greina.
Seðlabankastjóri segir að fyrirtæki ættu að halda að sér höndum í fjárfestingum og forgangsraða verkefnum. Fjármálastöðugleikanefnd hafi hækkað eiginfjárkröfu bankanna í síðustu viku til að hægja á útlánum til fyrirtækja og einnig skorað á bankana að sýna heimilunum sveigjanleika vegna aukinnar vaxtabyrði meðfyrirbyggjandi aðgerðum. Langvarandi ástand sem þetta gæti hins vegar leitt til samdráttar og kreppu.
„Eftir því sem verðbólga er lengur viðvarandi þeim mun erfiðara er að ná henni niður. Það eykur kostnaðinn við að ná henni niður. Þess vegna höfum við líka ákveðið að stíga stór skref og leggja eiginlega í hálfgerða leiftursókn gegn verðbólgu eins og staðan er núna. Til þess að ná henni niður eins fljótt og hægt er,“ segir Ásgeir Jónsson.