Kennarafélag Flensborgarskólans og annað starfsfólk skólans sendi frá sér ályktun vegna málsins í gær. Þar mótmæltu þau hugmyndinni um sameiningu Flensborgarskólans og Tækniskólans og segja tímasetningu og tímaramma fýsileikakönnunar einkar óheppilega. Anný Gréta Þorgeirsdóttir, formaður kennarafélags Flensborgar, segir starfsfólk óttast að búið sé að taka ákvörðun án samráðs.
„Það er svona tilfinningin sem við fáum. Sérstaklega þegar maður les skýrsluna um nýtt húsnæði Tækniskólans. Þegar það er greinilega búið að setja fram frummat á hákvæmni sameiningu skólanna og aldrei verið rætt við fulltrúa skólans,“ segir Anný Gréta. Kennurum og starfsfólki skólans finnist mjög hugmyndin mjög sorgleg. „Ef það á að leggja niður þessa rótgrónu menntastofnun sem hefur skipað stóran sess í lífi Hafnfirðinga og sögu Hafnarfjarðar,“ segir hún.
Anný Gréta segir starfsfólk skólans fyrst hafa heyrt fréttirnar af fyrirhuguðum samruna í fjölmiðlum. „Þegar þessi skýrsla kemur út og hún er kynnt af formanni nefndarinnar. Síðan fá skólastjórnendur okkar símtal með stuttum fyrirvara og eru boðuð á fund þar sem á að fara vinna þessa vinnu. Það hefur ekkert samráð verið haft við starfsfólk skólans að öðru leyti og ekki nemendur heldur,“ segir Anna Gréta.

Starfsfólks skólans sé uggandi. „Það er að minnsta kosti mjög órótt yfir þessu. Við vitum náttúrulega öll að þetta er sparnaðaraðgerð þannig að það þýðir að störf munu væntanlega tapast. Þetta er náttúrulega skammt komið og vonandi ekki búið að ákveða neitt en jú það eru allir uggandi um framtíðina,“ segir Anný Gréta.
Þá gagnrýnir starfsfólk skólans tímasetningu og tímaramma vinnunnar í kringum ákvörðun um samruna skólanna. „Þetta á að vinnast mjög hratt og á þessum álagstíma sem lok skólaársins er. Undarleg tímasetning. Það er verið að taka mjög stóra ákvörðun um framtíð skólans og þetta á að vinnast mjög hratt. manni finnst kannski ekki alveg vandað nógu vel til verka,“ segir hún að lokum.