Skoðun

Víst ríma þau, Jón og flón

Pétur Heimisson skrifar

Enn heggur Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra og nú að SAMfélagslegri sátt á Austurlandi. Þar gengur hann í slóð annarra, s.s. bæði tiltekins fréttamanns og fyrrum embættismanns, en Jón er jú ráðherra. Hann ræðst gegn afrakstri vandaðrar vinnu margra til að ná sátt um það hver yrðu næstu göng á Austurlandi. Ávöxtur þeirrar vinnu, ekki síst kjörinna fulltrúa margra stjórnmálaafla þvert á sveitarfélög á Austurlandi, birtist í endurteknum samþykktum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), um að það skuli vera Fjarðarheiðargöng.

Að misnota vald

Að æðsti maður dóms og laga á Íslandi skuli endurtekið fara fram með þeim hætti sem Jón Gunnarsson gerir er alvarlegt. Nýjustu skilaboðum sínum um göng á Austurlandi teflir Jón fram í nafni almannavarna. Það gerir hann án gildra raka eða þá deilir hann ekki með okkur því sem hann telur rök. Stjórnunarhættir Jóns eiga ekkert skylt við þjónandi forystu, sem hann er þó kjörinn til. Framganga hans finnst mér siðlaus ef ekki bein misnotkun valds og því spurning hvort hún kallist bola- eða böðulsbrögð?

Byggjum upp en brjótum ei !

Vinna starfshóps, samþykktir SSA og miklar undirbúningsrannsóknir hafa skilað því að Fjarðarheiðargöng eru tilbúin til útboðs. Einmitt þá reynir sjálfur dómsmálaráðherra að koma í veg fyrir að göngin verði að veruleika. Það finnst mér bein aðför að mikilli vinnu til uppbyggingar á Austurlandi. Verum ekki þau flón að hlusta á Jón (þó það rími) og fresta þannig allri gangagerð á Austurlandi um mörg ár. Líkleg og enn alvarlegri afleiðing slíks væru deilur og misklíð innan og á milli samfélaganna okkar á Austurlandi. Höldum markaðri stefnu, komum Fjarðarheiðargöngum í útboð og hefjumst svo handa. VINNUM ÁFRAM SAMAN AÐ UPPBYGGINGU AUSTURLANDS.

Höfundur er læknir




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×