BBC greinir frá því að farþegalest hafi farið af sporinu og klesst á lest sem kom úr gagnstæðri átt. Þá er þriðja lestin talin hafa klesst á þær fyrri skömmu síðar.
Björgunaraðgerðir standa enn yfir og hafa 207 verið úrskurðaðir látnir. Búist er við því að sú tala hækki eftir því sem líður á nóttina.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands kveðst vera í uppnámi vegna slyssins. „Öll möguleg aðstoð er veitt þeim sem tengjast slysinu,“ skrifaði hann á Twitter.
Í frétt indversku fréttaveitunnar ANI er haft eftir manni sem komst lífs af úr slysinu:
„Að minnsta kosti tíu til fimmtán manns hrúguðust ofan á mig þegar slysið varð. Allt varð vitlaust. Ég var undir hrúgunni. Ég slasaðist á hendi og baki. Þegar ég kom út sá ég að einhver hafði misst höndina, einhver hafði misst löppina og andlit eins var alveg afmyndað.“