Hannah Gutierrez-Reed var vopnavörður á setti kvikmyndarinnar, sem stórleikarinn Alec Baldwin fer með aðalhlutverkið í. Líkt ogítarlega hefur verið fjallað um leyndist byssukúla en ekki púðurskot í byssu sem leikarinn miðaði að Hutchins, með þeim afleiðingum að hún lést.
Baldwin hefur ekki verið ákærður fyrir aðkomu sína að málinu, en Gutierrez-Reed sætir hins vegar ákæru fyrir manndráp af gáleysi, með því að hafa sett röng skotfæri í byssuna.
Verjendur hennar hafa farið fram á það að ákærunni verði vísað frá dómi og sagt hana vera tilraun til mannorðsmorðs.
Hafi drukkið mikið og reykt kannabis
Saksóknarar í málinu hafa hins vegar látið krók koma á móti bragði og breytt málatilbúnaði sínum í málinu.
Nú segja þeir að Gutierrez-Reed eigi sér langa sögu að baki um gáleysislega hegðun í vinnu sinni sem vopnavörður og að það sé almenningi í hag að hún verði loksins látin sæta ábyrgð gjörða sinna.
Þá fullyrða þeir að hún hafi stundað mikla drykkju og kannabisreykingar á kvöldin á meðan á tökum kvikmyndarinnar stóð. Þannig séu allar líkur á því að hún hafi verið timbruð þegar voðaskotið reið af.
Í frétt Guardian um málið segir jafnframt að Alec Baldwin sé ekki enn alveg sloppinn með skrekkinn þar sem saksóknarar hafi tilkynnt að þeir muni taka sér sextíu daga til þess að ákveða hvort önnur ákæra verði gefin út á hendur honum. Fyrri ákæra á hendur honum, fyrir manndráp af gáleysi, var felld niður í apríl síðastliðnum.