Þingnefndin komst að þeirri niðurstöðu að Johnson hefði komið óheiðarlega fram þegar hann svaraði fyrir teiti sem haldin voru í Downing-stræti á sama tíma og Bretar sættu hörðum sóttvarnaraðgerðum; hunsað sannleikann og freistað þess að túlka reglur til að falla að eigin frásögn.
Þrátt fyrir að leiðtogar Íhaldsflokksins hefðu sagt að þingmenn flokksins gengu óbundnir til atkvæðagreiðslunnar og ættu að hlusta á samvisku sína höfðu stuðningsmenn Johnson haft í hótunum um að þeir sem greiddu atkvæði með skýrslunni myndu sæta afleiðingum.
Britain's parliament delivered another blow to the political career of former prime minister Boris Johnson when it endorsed a report that concluded that he deliberately lied over rule-breaking parties https://t.co/pLB8GQnosT pic.twitter.com/Ibo40fgJzk
— Reuters (@Reuters) June 20, 2023
Hótanirnar virðast ekki hafa haft tilskilin áhrif en 354 þingmenn greiddu atkvæði með skýrslunni og aðeins sjö á móti. Í bili virðist sem Johnson einn verði sá sem þarf að taka afleiðingum gjörða sinna en í refsingarskyni fyrir óheiðarleika sinn verður hann sviptur aðgengi að Westminster.
Rishi Sunak forsætisráðherra og aðrir ráðherrar voru fjarri góðu gamni þegar atkvæðagreiðslan fór fram og fengu bágt fyrir frá Verkamannaflokknum.
Þá voru samflokksmenn Johnson ófeimnir við að segja honum til syndanna án þess þó að nefna hann á nafn en Theresa May, forveri Johnson í embætti, biðlaði til þingmanna um að láta ekki vinskap birgja sér sýn; það væri mikilvægt að sýna að gripið væri til aðgerða þegar menn, hversu háttsettir sem þeir væru, gerðu rangt.
Fleiri voru harðorðir en Angela Richardson, þingmaður Íhaldsflokksins, var ekki síst gagnrýnin á þá staðreynd að þeir sem sátu í þingnefndinni hefðu þurft á aukinni öryggisgæslu að halda eftir að Johnson sagði af sér þingmennsku í fússi og gagnrýndi skýrsluhöfunda opinberlega.