Þrír yfirmenn hjá Íslandsbanka hafa nú látið af störfum eftir að bankinn samþykkti að greiða tæplega 1,2 milljarða sektargreiðslu vegna brota á lögum og innri reglum bankans við sölu á hlutum í honum í útboði bankans í fyrra.
Atli Rafn Björnsson, sem hefur stýrt fyrirtækjaráðgjöf bankans frá 2019, lét í gær af störfum. Á laugardag lét Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta, af störfum og í síðustu viku sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri, upp.
„Með þessu erum við búin að klára þær breytingar sem við teljum rétt að gera. Við fórum vel yfir þetta mál og þetta er það fyrsta sem ég skoðaði. Með þessu hafa allir þeir stjórnendur sem stýrðu verkinu og komu að því vikið úr sinum störfum og þannig axlað ábyrgð,“ segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.
Hann segir að samið hafi verið um starfslok Ásmundar og Atla Rafns og megi því segja að starfslokin hafi verið af beggja frumkvæði. Aðrar starfsmannabreytingar hafi ekki orðið.
„Eins og er bent á í skýrslunni voru klárlega mistök í framkvæmd þessarar sölu. Ef einn starfsmaður gerir mistök eru mistökin hans. Ef hópur starfsmanna gerir mistök er það klárt að það eru stjórnendur sem bera ábyrgðina. Eins og ég sagði áðan er enginn þeirra stjórnenda sem kom að verkinu enn í sínum störfum og hafa því axlað sína ábyrgð,“ segir Jón Guðni.
Nú verði farið í að undirbúa aðrar úrbætur og greint frá þeim á hluthafafundi 28. júlí, sem verður opinn öllum í streymi.