Kælivatn kjarnorkuversins varð geislavirkt þegar þrír ofnar þess bráðnuðu í gríðarlega öflugum jarðskjálfta og flóðbylgju í mars árið 2011. Vatninu hefur verið safnað saman, unnið og geymt í um þúsund tönkum við orkuverið. Búist er við að þeir fyllist snemma á næsta ári.
Sesín og fleiri geislavirkar kjarnategundir er að finna í kælivatninu. Japönsk stjórnvöld hyggjast sía vatnið til þess að lækka styrk þeirra. Það verður svo þynnt út með hundraðföldu magni af sjó áður en því verður sleppt. Ekki verður þó hægt að lækka styrk geislavirka efnisins þrívetnis áður en vatnið fer út í sjó.
Áformunum hefur verið mótmælt í Suður-Kóreu, Kína og á Kyrrahafseyjum. Þá hafa samtök fiskimanna í Japan mótmælt þar sem þeir óttast orðsporshnekki jafnvel þótt að afli þeirra verði ekki mengaður.
Sumir vísindamenn segja óljóst hvaða áhrif smáir en langvarandi skammtar af geislavirku efni geta haft og vilja bíða með að losa vatnið. Aðrir telja öruggt að sleppa því en krefjast aukin gegnsæis í eftirliti með geislavirkninni, að sögn AP-fréttastofunnar.
Japönsk stjórnvöld hafa sóst eftir samþykki Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar til þess að gefa áformum sínum aukinn trúverðugleika. Rafael Mariano Grossi, yfirmaður stofnunarinnar, afhenti Fumio Kishida, forsætisráðherra, lokaskýrslu hennar um áætlunina í dag.
Stofnunin segir að áformin veki upp félagslegar, pólitískar og umhverfislegar spurningar. Áhrif kælivatnsins á heilsu og umhverfi ættu þó að vera hverfandi miðað við núverandi áætlanir Japana. Þær séu í samræmi við alþjóðleg viðmið.