Niðurstöður sömu rannsóknar sýna hins vegar að starfsfólk er ekki að upplifa yfirmennina á sama hátt.
Í umræddri rannsókn, sem gerð var árið 2018, sýna niðurstöður að um 70% stjórnenda telja sig gefa starfsmönnum sínum mikinn innblástur og að þeim takist almennt mjög vel og markvisst að hvetja starfsmenn sína til dáða.
Niðurstöður sömu rannsóknar sýna hins vegar að 82% starfsfólks hafa ekki þá sömu skoðun á yfirmönnum sínum.
Svo sláandi eru þessar niðurstöður að greinahöfundar Harvard Business Review (HBR) mæla með því að stjórnendur skipti um taktík. Því þeir augljóslega eru ekki að ná þeim árangri sem þeir telja sjálfir að þeir séu að ná. Munurinn þarna á milli er einfaldlega of mikill, sýnin of ólík.
Í stað þess að reyna að vera leiðtogar sem telja sig vera góða í að hvetja starfsfólkið sitt til dáða, er mælt með því að stjórnendur skoði frekar leiðir sem beinast að starfsfólkinu sjálfu.
Fjögur atriði eru nefnd sérstaklega.
Einlægni: Að sýna starfsfólki samkennd og einlægan áhuga sem einstaklingum, frekar en að horfa á það sem hluta af einhverri heild
Líttu í eigin barm: Veltu til dæmis fyrir þér hvað þér finnst drífa þig áfram í starfi og hvernig þér tekst best upp við að takast á við áskoranir í vinnunni. Veltu síðan fyrir þér hvort það eru sömu leiðir eða aðferðir sem eru líklegar til að hafa sömu áhrif á starfsfólkið þitt. Ef já, nýttu þér þær þá og miðlaðu þeim. Ef nei, er það vísbending um að breyta mögulega algjörlega um takt í nálgun þína og samtölum við starfsmenn.
Sláðu af egóinu þínu: Stjórnendur geta orðið uppteknir af sínum eigin árangri, framgangi, ásýnd eða starfsframa. Þegar kemur að því að vera með mannaforráð og stjórna öðrum, á þetta ekki við og því er mælt með því að stjórnendur einfaldlega horfi meira á hvers konar stjórnun hentar fólkinu þínu best, en ekki hvað mögulega lætur þig líta best út.
Skilningur og samkennd: Sumir telja það veikleikamerki að sýna starfsmönnum sínum of mikla samkennd eða skilning. Samkvæmt HBR er þessi eiginleiki stjórnenda hins vegar einn sá besti sem góður leiðtogi býr yfir. Því alls staðar er það staðreynd að það mælist ekkert jafn vel í samskiptum og sú staðreynd að finnast á mann hlustað og að það sem maður segir skipti máli. Þess vegna er þetta eiginleiki sem stjórnendur ættu alvarlega að virkja hjá sjálfum sér og nálgast starfsfólkið sitt og samskipti við það á þeim nótum.