Frá þessu greinir New York Times í ítarlegri umfjöllun.
Lögreglan í New York-ríki hafði um langt skeið haft til rannsóknar morð sem kennd voru við Gilgo Beach en ellefu lík höfðu fundist við ströndina fyrir um áratug síðan, þar af fjögur af ungum vændiskonum.
Lík þeirra höfðu verið bundin og vafin í strigapoka og þær áttu það einnig sameiginlegt að hafa horfið eftir að hafa farið að hitta kúnna.
Þegar nýr lögreglustjóri tók við ákvað hann að gera gangskör í rannsókn málsins og var þá meðal annars óskað gagna sem sýndu fram á við hvaða fjarskiptaturna einnota farsímar morðingjans höfðu tengt við þegar hann hafði samband við konurnar.
Gögnin sýndu að á kvöldin og næturnar voru símarnir staðsettir á afmörkuðu svæði í Massapequa Park en á daginn nærri Penn Station á Manhattan. Svæðið í Massapequa Park taldi aðeins nokkur hundruð heimili en vandinn var að afmarka leitina enn frekar.
Vatnaskil urðu í málinu í mars í fyrra þegar einn rannsakenda fann lýsingu vitnis á bifreið sem morðinginn ók þegar hann heimsótti eitt fórnarlambanna; fyrstu kynslóðar Chevrolet Avalanche. Eftir leit í gagnabönkum kom í ljós að einn íbúa á svæðinu, Rex Heuermann, hafði átt slíkan bíl þegar fórnarlambið hvarf árið 2010.
Heuermann hafði ekki verið á radar lögreglu en hann passaði við lýsingu vitnisins; var stór og mikill. Þá starfaði hann á því svæði á Manhattan þar sem farsímarnir höfðu verið notaðir.
In the Gilgo Beach killings, the arrest of a suspect ended years of anguish for some of the victims families. But the investigation, and a key clue, also raised an unsettling question: Could the authorities have solved the case years earlier? https://t.co/Nq8g9aCYmu
— The New York Times (@nytimes) July 21, 2023
Það sem gerðist í framhaldinu var að umfangsmikið eftirlit hófst með Heuermann og einnig gagnasöfnun, sem leiddi í ljós að eiginkona hans, sem er íslensk, hafði verið á Íslandi, í Maryland og í New Jersey þegar þrjú morðana voru framin.
Þá var lífsýnum safnað, meðal annars af pizzakassa sem Heuermann losaði sig við á Manhattan, og þau borin saman við hár sem fundust á strigapokunum sem fórnarlömbin höfðu verið vafin í. Flest háranna voru talin vera af eiginkonu Heuermann en eitt reyndist af honum sjálfum.
Niðurstöðurnar lágu fyrir í júní og var Heuermann handtekinn í kjölfarið en hann hafði haldið áfram að heimsækja vændiskonur og höfðu rannsakendur nokkrar áhyggjur af því að hann myndi láta til skarar skríða á ný.
Rannsókn lögreglu leiddi einnig í ljós að Hauermann átti barnaklám á tölvu sinni og þá hafði hann margoft leitað að upplýsingum í tengslum við morðin við Gilgo Beach, meðal annars: Af hverju hefur Long Island raðmorðinginn ekki náðst?
Embættismenn sem New York Times ræddi við sögðust gera ráð fyrir því að það yrði rannsakað hvers vegna vitnisburðinum um bifreiðina var ekki fylgt eftir fyrr.