Skemmtiferðaskipin sem um ræðir eru MSC Preziosa, MS Fram, Scenic Eclipse 2 og Ocean Majesty, að því er fram kemur á vef Faxaflóahafna. Ekki náðist í Gunnar Tryggvason, hafnarstjóra vegna málsins en fréttastofu hafa borist myndir og ábendingar frá vegfarendum sem hafa gefið því gaum hve mörg skemmtiferðaskip liggja nú við Reykjavíkurhöfn.

Segir ferðaþjónustuna tilbúna í viðræður um skemmtiferðaskip
3.502 ferðamenn eru um borð í Preziosa, 254 í MS Fram, 228 í Scenic Eclipse og 621 um borð í Ocean Majesty. Töluverð umræða hefur átt sér stað um fjölda skemmtiferðaskipa sem leggja leið sína hingað til lands og fréttir fluttar af því að þau séu meðal annars mesti mengunarvaldur Evrópu.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir í samtali við Vísi að ljóst sé að nú sé háannatími þegar viðkemur komu slíkra skipa til landsins og staðan í Reykjavíkurhöfn sýni fram á það.
„Ferðaþjónustan gerir sér grein fyrir því að of mikið álag á innviði skaðar greinina sjálfa. Við viljum það alls ekki og erum tilbúin í samræður um það hvernig sé hægt að stýra umferð slíkra skipa hingað til lands.“
Gríðarleg aukning hafi orðið á komu slíkra skipa hingað til lands. Hingað hafi orðið 40 prósent aukning á farþegafjölda slíkra skipa hingað til lands á einu ári. Bjarnheiður segir fjölda skipa alfarið í höndum viðkomandi sveitarfélaga og hafnarstjóra eins og staðan sé núna. Farþegar skemmtiferðaskipa séu gjarnan selfluttir í land úti á landi þó það sé ekki algengt í Reykjavík.
„En það er greinilega mikið að gera ef að höfnin er sprungin. Við höfum skilning á þeim þrýsting sem hefur myndast á stjórnvöld að skoða fyrirkomulagið á komu þessara skipa til landsins og ég held að það væri bara af hinu góða.“
