Skoðun

Ójafnt er gefið

Björn Bjarki Þorsteinsson skrifar

Á Vesturlandi er 14% alls vegakerfisins á landinu eða 1.845 kílómetrar af 12.901 kílómetrum ef stuðst er við tölur frá því árið 2020 en í landshlutanum búa 5% landsmanna. Ef rýnt er í samanburð á fjárframlögum til stofnvega utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness, auk einstakra tengivega, kemur í ljós að í fyrirliggjandi drögum að Samgönguáætlun er á árunum 2024 til 2028 áætlaðar einungis 700 milljónir króna til framkvæmda á fyrrgreindum vegum á Vesturlandi af 44,4 milljörðum sem áætlað er að verja í stofnvegi á landsbyggðinni, já, segi og skrifa, 700 milljónir af 44,4 milljörðum eða um 1,6% af heildinni. Það er heldur betur ójafnt gefið og mætti halda að hér væri um prentvillu að ræða en svo er ekki.

Það er og verður aldeilis verk að vinna hjá Alþingismönnum kjördæmisins á næstu vikum og mánuðum við að fá fram leiðréttingu hvað Vesturland varðar í tillögu að Samgönguáætlun og mikilvægt að sveitarfélög og landshlutasamtökin okkar góðu standi þétt að baki þeim í þeirri mikilvægu vinnu.

Við í Dalabyggð höfum kynnt okkar tillögur að forgangsröðun vegaframkvæmda því ástand vega í Dalabyggð verður að bæta eins fljótt og auðið er. Bæði hvað varðar stofnvegi líkt og við á um Skógarstrandarveg og í gegnum Miðdali og svo hvað tengivegina okkar varðar sem eru að miklu leiti enn malarvegir sem skólabörn og fólk á leið til vinnu hristist um með tilheyrandi óþægindum og óheyrilegu sliti á ökutækjum og dekkjum.

Góðir vegir bæta lífsskilyrði þeirra íbúa sem við þá búa sem og atvinnubílstjóra og þeirra ferðamanna sem um vegina aka. Dalirnir og við íbúar á Vesturlandi allir eigum mikið inni hjá stjórnvöldum og vegayfirvöldum til að geta talist jafnokar annarra landshluta. Það er verk að vinna til þess að fá jafnt gefið hvað gæði vega varðar á Vesturlandi í samanburði við flesta aðra landshluta og því mikilvægt að við íbúar landshlutans séum samtaka í okkar áherslum og þrýstingi á þá sem stjórna hvert fjármagn fer.

Höfundur er sveitarstjóri í Dalabyggð




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×