Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ja, vekjaraklukkan er oftast stillt klukkan 7:05 en ég á það til að snooza svona einu sinni eða tvisvar til ca. 7:15.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég byrja eiginlega alltaf á því að kveikja á kaffivélinni og fer svo og vek börnin.“
Nefndu stórtækustu draumana frá því að þú varst lítil um hvað þú ætlaðir að vera þegar þú yrðir stór?
Ég ólst upp við Vigdísi Finnbogadóttur sem forseta og mér fannst það liggja mjög beint við að verða forseti einn daginn.
En ég ætlaði svosem líka að verða álfkona á einhverjum tímapunkti svo þar höfum við það haha!
Þegar ég varð eldri vissi ég ekkert nákvæmlega hvað ég ætlaði að gera, ég vissi bara að ég ætlaði að gera eitthvað stórt og merkilegt.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Samfélagsmiðlar Lava Show er eitt af því sem ég sé um og síðan atburðarásin í Grindavík fór af stað hef ég mikið verið að gera myndbönd á Instagram og TikTok þar sem ég útskýri í stuttu máli hvað er í gangi upp á enska tungu.
Það er alveg magnað hvað hræðsluáróðurinn í fréttum erlendis hefur verið gegndarlaus í tengslum við þetta allt og ég hef því reynt, bæði á samfélagsmiðlum en líka í viðtölum við erlenda miðla, að slá á ranghugmyndirnar og til dæmis leiðrétta þann leiða misskilning að ekki sé hægt að ferðast til Íslands vegna eldgosahættu.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég lifi eftir dagatalinu mínu og ef eitthvað er ekki þar þá á það svolítið til að gleymast. Ég nota líka mikið verkefnalista, þá oftast í Teams. Annars bý ég við svona hálfgert skipulagt kaós. Ég kann því nokkuð vel að hafa mikið fyrir stafni og kemst yfirleitt yfir nokkuð mikið þegar ég er undir pressu.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég var alltaf mikil B-týpa en hef verið að temja mér að fara fyrr að sofa, bæði vegna þess að ég finn að ég er orðin kvöldsvæfari en áður en líka vegna þess að ég finn mikinn mun á mér daginn eftir ef ég næ ekki nógu góðum svefni.“