Skýr merki eru um að dregið hafi úr umsvifum í hagkerfinu. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir þetta til marks um að vaxtahækkanir og breytingar á lánareglum væru að skila árangri í baráttunni við verðbólguna.

„Ef við náum því marki að geta hægt á kerfinu og náð að knýja fram mjúka lendingu, án þess að það komi eitthvað upp í fjármálakerfinu, þá er það mjög jákvætt,“ segir Ásgeir.
Verkalýðshreyfingin gengur sameinuð til viðræðna um nýja langtíma kjarasamninga og kallar eftir því að sveitarfélögin dragi verulega úr fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum á bilinu 5 til 30 prósent á næsta ári. Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs brást við þessu ákalli á fimmtudag í síðustu viku.
„Það sem skiptir mestu máli er að aðilar vinnumarkaðarins nái hófsömum kjarasamningum með það að markmiði að ná verðstöðugleika í landinu. Ef það tekst þá er Reykjavíkurborg tilbúin að axla ábyrgð og draga úr þessum breytingum á gjaldskrám,“ sagði Einar.
Seðlabankastjóri fagnar þessum viðbrögðum.
„Það sem við náttúrlega óttuðumst og sem kom fram í síðustu útgáfu Peningamála, er að verðbólga haldi áfram jafnvel þótt hagkerfið kólni og hagvöxtur minnki. Að þessi skriða stoppi ekki,“ segir seðlabankastjóri. Þess vegna væri ánægjulegt að heyra þann tón sem nú bærist frá sameinaðri verkalýðshreyfingu og Samtökum atvinnulífsins.
Nýjasta spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að verðbólgan verði þrálátari en áður var spáð og verði um 5 prósent á næsta ári. Seðlabankastjóri segir hins vegar að ef vel takist til gæti verðbólgan hjaðnað hraðar.

„Verðbólga sýnir merki um að hún sé farin að gefa eftir, bæði hér og erlendis. Nú skiptir öllu máli að við stígum rétt skref til að við getum náð mjúkri lendingu,“ segir Ásgeir. Án þess að það leiði til samdráttar.
Þegar gerðir væru kjarasamningar til langs tíma þyrfti ekki allt að gerast á fyrsta árinu. Uppbygging húsnæðis tæki til dæmis lengri tíma. Það væri aftur á móti ánægjulegt að verkalýðshreyfingin legði áherslu á að fleira en launin skipti máli fyrir hag heimilanna, eins og aðgengi að húsnæði. Skortur á húsnæði ætti stóran þátt verðbólgunni.
„Og í sjálfu sér óheppilegt að við séum í rauninni að beita vöxtum sem viðbragði við húsnæðisskorti. Það er ekki alveg heppilegt,“ segir Ásgeir Jónsson.