Lífið

Frum­sýning á Vísi: Fyrsta stiklan af ís­lenska sálfræðitryllinum Natatorium

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Elin Petersdóttir í hlutverki Áróru.
Elin Petersdóttir í hlutverki Áróru. Aðsend

Íslenski sálfræðilegi tryllirinn Natatorium verður frumsýnd hér á landi föstudaginn 23. febrúar næstkomandi. Myndin er í leikstjórn Helenu Stefánsdóttur.

Natatorium segir frá ungri stúlku, Lilju sem kemur til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf íalþjóðlegan gjörningahóp. Hún ákveður að dvelja hjá ömmu sinni Áróru og afa sínum Grími sem hún hefur ekki séð lengi vegna ósættis í fjölskyldunni. Þegar líður á dvöl Lilju fer ýmislegt undarlegt að koma upp á yfirborðið og ljóst er að það sem hefur sundrað fjölskyldunni er hrikalegt leyndarmál sem engin þorir að tala um. 

Þegar Lilja er tekin inn í listahópinn býður Áróra fjölskyldunni heim til að fagna og hefur það skelfilegar afleiðingar í för með sér.

Myndin verður heimsfrumsýnd þann 28. janúar á Alþjóða kvikmyndahátíðinni í Rotterdam og í gærkvöldi var tilkynnt að myndin verður sýnd á kvikmyndahátíðinni South by Southwest, sem fer fram í mars í Austin, Texas. Myndin er hluti af Global flokk hátíðarinnar þar sem sýndur er þverskurður af því besta sem er að gerast í alþjóðlegri kvikmyndargerð.

Í aðalhlutverkum eru þær Elin Petersdottir og Ilmur María Arnardóttir. Með önnur hlutverk fara Stefanía Berndsen, Jónas Birkir Alfreðsson, Valur Freyr Einarsson, Arnar Dan Kristjánsson, Stormur Jón Kormákur Baltarsarsson og Kristín Pétursdóttir.

Framleiðandi Natatorium er Sunna Guðnadóttir, hjá Bjartsýn Films. Meðframleiðendur eru Heather Millard, hjá Silfurskjá, og Julia Elomäki, hjá Tekele Productions.

Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Natatorium - stikla





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.