Ýmir var í stóru hlutverki í vörn íslenska liðsins, gekk vasklega fram og var til að mynda með tólf löglegar stöðvanir í leiknum. Ýmir hafði ekki spilað mikið á EM fram að leiknum í gær en Snorri Steinn Guðjónsson treysti honum fyrir stóru hlutverki gegn Þjóðverjum.
„Ég held að það hafi verið skilaboðin: Nú kemur þú inn og mátt fá gult og tvær mínútur og þess vegna rautt, farðu bara þarna. Maður sá bara strax í fyrstu vörn, bara vá! Hann er funheitur. Hann átti að vera stríðsmaðurinn inni á vellinum sem við höfum kallað eftir, þessi ástríða. Hann gerði alveg mistök inni á milli, telur vitlaust og eitthvað svona en maður fyrirgefur það alltaf. Hann gaf liðinu ógeðslega mikið,“ sagði Einar í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar.
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, tók undir með Einari. „Menn munu gera mistök, það er eðli leiksins, en þú átt ekki að vera að pæla í því. Þú átt bara að vera að djöflast og það var nákvæmlega það sem gerðist. Svo eru skoruð mörk eins og gerist en það var samt bara áfram með þetta. Hann tók oft 2-3 klippingar, náði góðum, föstum brotum, lét menn finna virkilega fyrir því að sækja inn í vörnina,“ sagði Bjarni.
Ýmir átti oft í höggi við Juri Knorr, leikstjórnanda Þýskalands, en þeir eru samherjar hjá Rhein-Neckar Löwen.
„Bollasúpan Knorr hefur iðulega byrjað leiki þar sem hann hefur raðað inn mörkum. Hann átti ekki möguleika í Ými. Þeir þekkjast mjög vel. Hann tók hann og pakkaði honum saman og henti honum beint í bollann aftur,“ sagði Einar.
„Mér fannst Ýmir geggjaður og geggjuð ákvörðun hjá Snorra að henda honum inn núna.“
Þáttinn má heyra í spilaranum að ofan. Besta sætið er aðgengilegt á öllum helstu hlaðvarpsveitum, t.a.m. á Spotify hér. Hver einasti leikur Íslands á EM verður gerður upp af sérfræðingum í Besta sætinu.