Bankaráð Landsbankans svaraði í dag bréfi Bankasýslu ríkisins frá því á mánudag þar sem óskað var eftir upplýsingum um skuldbindandi tilboð bankans um kaup af Kviku banka á TM.
Í svari bankaráðs er rakið að formaður þess hafi í júlí í fyrra greint Bankasýslunni frá því í tölvupósti að bankinn hefði haft samband við Kviku og lýst yfir áhuga á að kaupa TM. Bankasýsla hafi samdægur svarað tölvupóstinum án athugasemda varðandi kaupin.
Formlegt söluferli á TM hafi þá hafist 17. nóvember síðastliðinn og rúmum mánuði síðan hafi bankaráð upplýst Bankasýsluna í símtali við stjórnarformann að bankinn hefði skilað inn óskuldbindandi tilboði í TM.
Tölduð þið það vera nóg?
„Við töldum að við hefðum upplýst Bankasýsluna nægilega. Við gerðum það fyrst í fyrra sumar, við gerðum það í desember, þegar við lögðum fram óskuldbindandi tilboð, og Bankasýslan hefur ekki á neinum tíma síðan beðið um viðbótargögn,“ segir Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans.
Landsbankinn hafi 15. mars síðastliðinn lagt fram skuldbindandi tilboð í TM og upplýst Bankasýsluna um það tveimur dögum síðar.
Forstjóri bankasýslunnar sagði í bréfi til fjármálaráðherra á dögunum að engar formlegar upplýsingar hefði á nokkrum tímapunkti borist Bankasýslunni um þátttöku Landsbankans í söluferlinu. Helga Björk hafi einungis minnst á áhuga bankans á að taka þátt í óformlegu símtali í desember. Því hafi kauptilboðið komið honum að óvörum, sem fjármálaráðherra hefur tekið undir.
Koma þessi viðbrögð á óvart?
„Já, þau koma mér reyndar mjög á óvart. Af því að við erum búin að vera í samtölum eða höfum upplýst um okkar áhuga á því að kaupa TM frá því í fyrra sumar. Þeirra viðbrögð koma mér mjög á óvart.“
Fréttastofa óskaði ítrekað eftir viðbrögðum frá Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra BAnkasýslunnar, í dag án árangurs.