NBC hefur eftir fjórum heimildamönnum innan lögreglunnar að útsendarar alríkislögreglunnar, nánar til tekið frá heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna, hafi gert húsleit í fasteignum Diddy, sem réttu nafni heitir Sean Combs, í Los Angeles og Miami.
Talsmenn á vegum Combs hafa ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla vestanhafs.
Greint hefur verið frá því að þyrlur hafi sveimað yfir húsunum sem leitirnar snúa að, og að löggæsluliðar hafi einnig siglt upp að glæsihýsi hans í Beverly Hills í Los Angeles. Myndskeið sem TMZ-slúðurfréttaveitunni barst má sjá hér að neðan.
Nokkur fjöldi fólks virðist hafa verið tekinn til yfirheyrslu, líkt og sjá má hér að neðan.
Fjöldi ásakana um kynferðisbrot
Combs gerði í nóvember í fyrra dómsátt vði söngkonuna Cassie, sem hann hafði átt í ástarsambandi við. Hún hafði sakað hann um andlegt og kynferðislegt ofbeldi sem staðið hefði yfir um árabil.
Í kjölfarið stigu þrjár konur til viðbótar fram og sögðu Combs hafa beitt þær kynferðisofbeldi. Tvær þeirra kváðust hafa verið táningar þegar ofbeldið átti sér stað.