Þeir félagar hafa marga baráttuna háð í gegnum tíðina en Djokovic hafði unnið Nadal 30 sinnum en Nadal unnið 29 sinnum.
Nadal hefur gjarnan verið kallaður konungur leirsins enda unnið Opna franska meistaramótið oftast allra eða 14 sinnum.

Hann kom hins vegar vængbrotinn inn í viðureign dagsins og var að glíma við smávægileg meiðsli. Það sýndi sig í fyrsta setti sem Djokovic vann örugglega 6-1.
Djokovic komst 4-0 yfir í öðru settinu og virtist ætla að ganga frá Spánverjanum en þá svaraði Nadal fyrir sig með því að jafna 4-4. Það dugði þó skammt, Djokovic kláraði settið 6-4 og tryggði sér þannig 2-0 sigur.
Djokovic fer því áfram í þriðju umferð og leitar síns fyrsta Ólympíugulls og fyrstu Ólympíuverðlauna síðan 2008. Þrátt fyrir að falla úr leik hefur Nadal ekki lokið keppni á leikunum, en hann er félagi landa síns Carlosar Alcaraz í tvíliðaleik.