Khelif er komin í undanúrslit í 66 kg flokki á Ólympíuleikunum í París en hún er einn umtalaðasti íþróttamaður þeirra. Sem kunnugt er var Khelif meinuð þátttaka á HM í hnefaleikaleikum í fyrra þar sem hún stóðst ekki kynjapróf Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) sem skipuleggur heimsmeistaramótið.
IBA kemur hins vegar ekki lengur að hnefaleikakeppninni á Ólympíuleikunum og þar má Khelif keppa. Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur gagnrýnt ákvörðun IBA að banna Khelif og hinni taívönsku Lin Yu-ting að taka þátt á HM harðlega.
Khelif hefur verið mikið milli tannanna á fólki undanfarna daga og í viðtali við SNTV sagðist hún vera komin með nóg af öllu áreitinu.
„Ég sendi öllum að hafa gildi Ólympíuleikanna í hávegi og hætta að níðast á öllu íþróttafólki því það hefur áhrif, mikil áhrif,“ sagði Khelif.
„Þetta getur eyðilagt fólk. Þetta getur drepið hugsanir fólks, anda þess og huga. Þetta getur sundrað fólki. Og þess vegna bið ég það um að láta af níðinu.“
Khelif segist vera í stöðugu sambandi við fjölskyldu sína og að þau hafi áhyggjur af henni. Hún sagði að besta niðurstaðan úr öllu væri ef hún myndi vinna gullverðlaun.
Khelif vildi ekki svara því hvort hún hefði gengist undir önnur próf en lyfjapróf og sagðist ekki vilja tala um það.
Hún sagðist ennfremur vera þakklát Thomas Bach, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar, fyrir stuðning hans.
Á morgun mætir Khelif Janjaem Suwannapheng frá Taílandi í undanúrslitum í 66 kg flokki á Ólympíuleikunum. Ef hún vinnur mætir hún annað hvort Chen Nien-chin frá Taílandi eða Yang Liu frá Kína á föstudaginn.