Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Umsækjendur um embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu eru í stafrófsröð:
- Arnrún Halla Arnórsdóttir, aðjúnkt
- Bryndís Elfa Valdemarsdóttir, sérfræðingur
- Elinóra Guðmundsdóttir, fjölmiðlafræðingur
- Jón Fannar Kolbeinsson, lögfræðingur
- Marcin Zembrowski, viðskiptafræðingur
- Martha Lilja Olsen, skrifstofustjóri
Katrín Björg Ríkarðsdóttir hefur gengt embættinu frá árinu 2017 en hún var nýlega ráðin sem sérfræðingur í kjara- og réttindamálum hjá Visku - stéttarfélagi.
Jafnréttisstofa annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Ráðherra skipar framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn stofnunarinnar og ræður starfsfólk hennar.
Meðal verkefna Jafnréttisstofu er að hafa eftirlit með framkvæmd laga á sviði jafnréttismála, sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi, veita ráðgjöf og aðstoð á sviði jafnréttismála, koma á framfæri ábendingum og tillögum til að ná fram auknu jafnrétti og fylgjast með þróun jafnréttismála í þjóðfélaginu og á alþjóðavettvangi, m.a. með upplýsingaöflun og rannsóknum.
Einnig að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samvinnu við hlutaðeigandi stjórnvöld og samtök. Þá sinnir stofnunin eftirfylgni með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu. Jafnréttisstofa er staðsett á Akureyri.
Sérstök hæfnisnefnd skipuð þremur einstaklingum mun meta hæfni umsækjenda og skila greinargerð til Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Eftirfarandi kröfur eru gerðar til umsækjenda:
- Háskólapróf sem nýtist í starfi
- Gerð er krafa um reynslu af stjórnun og mannauðsmálum
- Gott vald á íslensku og færni til að koma fram og tjá sig í ræðu og riti
- Góð kunnátta í ensku og kunnátta í einu Norðurlandamáli er kostur
- Leiðtogahæfileikar
- Samskiptafærni og hæfni til að miðla upplýsingum
- Þekking og reynsla á sviði jafnréttismála
- Framsýni, metnaður og vilji til að ná árangri
- Frumkvæði, sjálfstæði í vinnubrögðum og skipulagshæfni
- Þekking og reynsla af stefnumótun, stjórnun og rekstri á sviði opinberrar stjórnsýslu sem nýtist á starfssviði stofnunarinnar.