Herstöðin kallast Khmeimim og er nærri hafnarborginni Lattakia í vesturhluta Sýrlands. Myndefni sem birt hefur verið á samfélagsmiðlum rennur stoðum undir það að hergögn hafi verið geymd á staðnum.
Rússneskir herbloggarar segja vöruskemmurnar hafa verið notaðar af sýrlenskum og írönskum hermönnum og að Ísraelar hafi notað stýriflaugar við árásina.
Þeir segja rússneska hermenn hafa reynt að skjóta flaugarnar niður. Einhverjar stýriflaugar voru skotnar niður, samkvæmt herbloggurunum, en ljóst er að miklar sprengingar urðu í vöruskemmunum.
Israel reportedly struck a warehouse of Iranian and Syrian weapons (you can see missiles or rockets cooking off) in the town of Jableh near the main Russian base of Hmeimim in Syria. The base itself has not been touched, per Russian accounts, and the Russians apparently tried to… pic.twitter.com/kyTlaPWWnu
— Yaroslav Trofimov (@yarotrof) October 3, 2024
Eins og fram kemur í frétt Times of Israel hafa forsvarsmenn ísraelska hersins heitið því að stöðva allar vopnasendingar frá Íran til Hezbollah í Líbanon. Sýrland hefur reglulega verið notað til slíkra sendinga og hafa Ísraelar gert fjölmargar árásir þar á undanförnum árum.
Þessar árásir hafa bæði beinst að vopna og hergagnasendingum til Hezbollah og gegn samtökunum sjálfum, sem hafa verið umsvifamikil í Sýrlandi frá því borgarastyrjöldin hófst þar á síðasta áratug.
Sjá einnig: Ísraelar gerðu áhlaup á leynilega vopnaverksmiðju í Sýrlandi
Fjölmiðlar í Íran segja að meðlimur Byltingarvarðar Írans, sem hafi starfað í Sýrlandi sem ráðgjafi, hafi fallið í árás Ísraela á Damaskus, höfuðborg Sýrlands, fyrr í þessari viku.