Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Arion banka. Þar segir að óverðtryggðir breytilegir vextir lækki um 0,25 prósentustig og verði 10,64 prósent. Óverðtryggðir fastir vextir lækki um 0,6 prósentustig og verði 8,8 prósent.
Þá segir að kjörvextir bílalána lækki um 0,25 prósentustig, almennir óverðtryggðir kjörvextir lækki um 0,25 prósentustig og yfirdráttavextir lækki um 0,25 prósentustig.
Vextir sparnaðarreikninga lækka um allt að 0,35 prósentustig
Óverðtryggðir vextir sparnaðarreikninga lækki um allt að 0,35 prósentustig. Innlánsvextir veltureikninga séu óbreyttir. Vextir reikninga í erlendri mynt lækki um allt að 0,76 prósentustig, mismunandi eftir myntum og þeim breytingum sem átt hafa sér stað á stýrivöxtum viðkomandi lands.
Vaxtabreytingar útlána taka mið af fjármögnunarkostnaði bankans á hverjum tíma en einnig af öðrum þáttum, meðal annars útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans fylgi að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans en einnig hafi aðrar fjármögnunarleiðir umtalsverð áhrif, svo sem innlán viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlend skuldabréfaútgáfa og eiginfjárgerningar.
Breytast frá og með 8. október
Öll ný útlán bera nýju vextina frá og með 8. október. Breytingar á vöxtum inn- og útlána sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taki gildi í samræmi við skilmála lánanna og tilkynningar um vaxtabreytingar.