Sænska vísindaakademían kynnti vinningshafana á blaðamannafundi í Stokkhólmi nú klukkan 9:45. Verðlaunin í ár hlaut David Baker frá Háskólanum í Washington-ríki í Bandaríkjunum, fyrir hönnun á prótíni og félagarnir Demis Hassabis og John M. Jumper frá hugbúnaðarfyrirtækinu Google Deepmind fyrir forspár um uppbyggingu prótína.
Prótín, sem eru sett saman úr amínósýrum, stjórna öllum efnahvörfum sem lífið eins og við þekkjum það byggist á. Þau virka einnig sem hormónar, boðberar, mótefni og byggingareinning lífrænna vefja.
Í rökstuðningi akademíunnar kom fram að Hassabis og Jumper hefðu notað gervigreind til þess að spá fyrir um margslungna samsetningu allra þekktra prótína í náttúrunni árið 2020. Vísindamenn höfðu glímt við það vandamál um áratuga skeið að spá fyrir um uppbyggingu prótína áður en tvímenningarnir kynntu gervigreindaforrit sitt fyrir fjórum árum.

Afrek Hassabis og Jumper hjálpar vísindamönnum meðal annars að skilja betur sýklalyfjaónæmi og mynda ensím sem geta brotið niður plast.
Baker hlaut sín verðlaun fyrir að nota reiknirit til þess að hanna ný prótín með nýja virkni sem eru sögð geta haft miklar framfarir í för með sér fyrir mannkynið. Prótín sem hafa verið framleidd þökk sé rannsóknum Baker nýtast meðal annars í framleiðslu á lyfjum, bóluefnum, nanóefnum og agnarsmáum skynjurum.
Fréttin hefur verið uppfærð.